140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[21:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka samstarfsfólki mínu í utanríkismálanefnd fyrir gott samstarf við vinnslu á þessari tillögu og málefnalega umfjöllun í nefndinni. Nafn mitt er ekki að finna á nefndarálitinu þar sem ég kaus að víkja af úttektarfundi svo að nýjasti félagi okkar, hv. þm. Amal Tamimi, gæti tekið þátt í afgreiðslu málsins. Það fór enda vel á því eftir þátttöku hennar í umfjöllun um tillöguna á fundum nefndarinnar ítrekað og var auðvitað undirstrikaði í þeirri ræðu sem við heyrðum áðan þar sem hún lýsti veruleika sem ekkert okkar getur fyllilega sett sig inn í en ýmsir þeir sem sest hafa að á Íslandi og verið velkomnir og fundið réttindi sín á Íslandi hafa reynt í eigin lífi. Það fer líka vel á þeirri góðu samstöðu sem tekist hefur í utanríkismálanefnd um þetta mál og ég lýsi þeirri eindregnu von minni að þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki orðið okkur samferða í nefndaráliti muni hann styðja ályktunina sjálfa við atkvæðagreiðslu á morgun.

Um þetta mál hefur auðvitað lengi verið mikil samstaða með íslensku þjóðinni. Hér erum við formlega að staðfesta þá afstöðu sem lengi hefur verið uppi með miklum meiri hluta íslensku þjóðarinnar enda höfum við Íslendingar löngum haft mikinn skilning á kröfum þjóða um sjálfstæði, hafi þær verið reistar á rökum og sanngirniskröfum eins og ótvírætt er í þessu tilfelli og svo mörgum öðrum tilfellum þar sem við höfum látið okkur málin varða og stutt sjálfstæðiskröfur þjóða og talið það vera farsælasta leið til að skapa frið á svæðum sem þjáðst hafa fyrir ófriðarsakir um árabil og stundum áratugi. Það er einmitt hluti af ástæðunni fyrir því að við styðjum þessar sjálfstæðiskröfur, það er ekki bara vegna samúðar með sjálfstæðiskröfunum í sjálfu sér heldur er það trú okkar, von og vissa að sjálfstæði þjóðar í þessum aðstæðum sé vísasti vegurinn til að ná friði og farsæld á svæðinu öllu því að sjálfstæðinu fylgir afl og kraftur til uppbyggingar, til árangurs, til aukinnar hagsældar og þeirrar þróunar sem þarf að verða til að stakkaskipti geti orðið á skorti og styrjaldarástandi til farsældar og friðar.

Þó að við höfum nokkuð eindregið tekið afstöðu með þessum kröfum Palestínumanna er það alls ekki svo að við leggjumst með afstöðu okkar á sveif með öfgum á annan hvorn veginn. Við köllum eftir tveggja ríkja lausn og því að aðilar virði hvorir aðra. Á báða bóga eru auðvitað til öfgasjónarmið sem við getum ekki tekið undir. Það eru til að mynda sjónarmið sem neita að viðurkenna gyðingaríki á annan bóginn og á hinn bóginn kom fram fyrir nefndinni að til eru sjónarmið um að Ísraelsríki eigi kröfu til landsvæða langt út fyrir núverandi landamæri Ísraels sem vísað sé til sem ríkis Davíðs konungs og megi lesa um í annarri Mósebók.

Ég held að það hafi verið það síðasta sem móðir mín heyrði áður en ég fæddist, það voru fréttirnar um sex daga stríðið. Svo lengi, því að ég er kominn vel yfir miðjan aldur, hefur þetta ástand varað og miklu lengur og án þess að á því hafi fundist nokkur skapleg lausn. Á köflum hefur ástandið ekki gert annað en að versna og stundum undrar mann fullkomlega hversu mikilli grimmd mennirnir geta fundið upp á. Ég hygg að eitt af því sem manni hefur á síðari árum kannski blöskrað hvað mest er sá múr sem reistur var á þessum svæðum, þeir 700 kílómetrar sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson vísaði til áðan. Rétt eins og við börðumst gegn múrnum í Evrópu og fögnuðum því þegar tókst að brjóta hann niður þá er múrinn þarna eitthvað sem enginn sá sem lætur sig frelsi eða mannúð af nokkru tagi varða getur unað við og hlýtur að gera kröfu til breytinga.

Það er algerlega fullreynt að fara þá leið að aðeins annar aðilinn sé sjálfstætt ríki en hinn aðilinn sé réttlaus og þurfi á hann að sækja. Það hefur um margra áratuga skeið ekki skilað árangri og þó að það sé alveg rétt að það að formgera vilja íslensku þjóðarinnar með því að samþykkja þessa ályktun á þingi á morgun muni ekki skapa frið á þessu svæði eða verða lausnin á málinu, er ótvírætt að óhjákvæmilegt er að gera grundvallarbreytingar á stöðu aðilanna ef nokkur von á að vera til að árangur náist vegna þess að núverandi staða aðilanna hefur engum eða afar litlum árangri skilað um áratuga skeið.

Þess vegna er ástæða til að fagna því að tillagan sé sett fram og það erum auðvitað ekki bara við Íslendingar sem erum þessarar skoðunar, þetta viðhorf er ríkjandi um allan heim. Því miður hefur neitunarvaldi iðulega verið beitt til að koma í veg fyrir að raunverulegur vilji þjóðanna í þessu efni, stuðningur við Palestínumenn í þrengingum þeirra, hafi náð fram að ganga. Það er því eðlilegt að þjóðþingin, hvert af öðru, lýsi einfaldlega þeim vilja sínum þannig að hann liggi fyrir skýrt og afdráttarlaust.

Ég ítreka þakkir mínar til samnefndarmanna minna fyrir samstarfið að málinu.