140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[21:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Það er stundum alveg yndislegt að fá að vera þingmaður og þetta er einn af þeim dögum þar sem ég er gríðarlega stolt og ánægð yfir því að fá að taka þátt í vinnunni okkar. Ég er ánægð yfir samstöðunni og ég er ánægð að fá að taka þátt í sögulegum viðburðum á þjóðþinginu okkar.

Mann skortir oft orð þegar svona stóra hluti eins og það sem við erum að fjalla um í kvöld ber á góma. Hvernig er hægt að finna orð gagnvart öllu því óréttlæti og allri þeirri grimmd sem hefur átt sér stað í Palestínu?

Ég hitti konu í sumar sem var um borð í bandarískri „flotillu“ sem var tekin í herkví á Grikklandi. Þetta var eldri kona sem hafði lifað af helförina. Ég man ekki fyrra nafnið hennar, hún heitir Heizt. Henni blöskraði svo að sjá söguna endurtekna í Palestínu, söguna sem hún upplifði í Þýskalandi að hún fann sig knúna til að berjast fyrir mannréttindum í Palestínu.

Það er rétt sem hefur komið fram að með því að samþykkja þetta á morgun mun ef til vill ekki gerast kraftaverk og friður komast á strax á morgun en þetta er eitt lítið en ákaflega mikilvægt skref og það er gott fyrir þjóð eins og Ísland, sem er herlaust og hefur sem betur fer ekki þurft að upplifa margar af þeim hörmungum sem allt of margir í heiminum okkar þurfa að búa við, að geta stigið fyrsta skrefið. Við erum svo lánsöm að við getum tekið þetta fyrsta skref í átt að mannréttindum og vonandi á endanum fullvalda Palestínu.

Út af því að mig skortir orð ákvað ég að leita í smiðju eins af uppáhaldsskáldunum mínum. Ég þýddi eftir hann ljóð fyrir nokkrum árum þegar árásirnar á Gaza voru sem hryllilegastar. Þetta skáld heitir Mahmud Darwish og er ástsælasta útlagaskáld Palestínumanna. Sum ljóðin hans eru sungin á ökrunum þegar fólkið er að vinna. Þorpið sem hann ólst upp í hefur verið jafnað svo rækilega við jörðu að jafnvel beinin í kirkjugörðunum voru færð annað. Darwish lést árið 2008. Mig langar að lesa ljóð sem ég þýddi eftir hann sem heitir „Hér á ég heima“.

„Hér á ég heima. Ég á margar minningar. Ég fæddist eins og allir fæðast. Ég á móður, hús með mörgum gluggum, bræður, vini og fangaklefa með kuldalegum glugga! Ég á bylgju sem mávar hrifsuðu til sín, mína eigin yfirlitsmynd.

Ég á litsterk engi. Í djúpum sjónsviðs orða minna á ég tungl, næringu fugls og ódauðlegt ólívutré.

Ég hef búið á þessu landi löngu áður en sverðin breyttu manninum í fórnarlamb. Ég á heima þar. Þegar himnaríki syrgir móður mína, þá skila ég himnaríki til móður hennar.

Og ég græt svo að skýið sem snýr til baka beri tár mín.

Til að brjóta lögin hef ég lært öll orðin sem eru nauðsynleg fyrir blóðprófið. Ég hef lært og krufið orðin til að hægt sé að draga úr þeim eitt stakt orð: Heim.“

Mig langar að lesa annað ljóð eftir þetta sama skáld og það er þýtt eftir vin minn Eyvind P. Eiríksson og mér finnst það vel við hæfi í kvöld:

„Við ferðumst eins og annað fólk en við snúum ekki aftur til neins líkt og ferðalagið væri vegur skýsins.

Við höfum grafið ástvini okkar í skugga skýsins, milli trjárótanna og hvatt konur okkar: Haldið áfram að fæða börn í hundrað ár svo við getum lokið þessari ferð til lands einnar stundar, til eins metra hins ógerlega. Við ferðumst í vögnum sálmanna, sofum í tjöldum spámanna okkar og stingum upp kollinum í orðatiltækjum förufólksins.

Við mælum geiminn með nefi stríðsfuglsins eða syngjum til að reka brott fjarlægðina og þvo tunglskinsgeisla hreina.

Vegur þinn er langur og megi þig dreyma sjö konur til að bera leiðina löngu á herðum þínum og hristu pálmana handa þeim til að kynnast nöfnum þeirra og þeirri móður sem á að fæða strákinn úr Galíleu.

Við eigum land orða. Talaðu, talaðu svo ég megi leggja veg minn um grjót.

Við eigum land orða. Talaðu, talaðu svo við fáum greint lokaáfanga þessarar ferðar.“