140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[21:54]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er mikið ánægjuefni að fá að standa hér, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sagði, á Alþingi Íslendinga og eiga þess kost að taka þátt í því að Alþingi viðurkenni Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá 1967. Kastljós fjölmiðla er yfirleitt alltaf á deilur flokka og jafnvel flokksbrota í þessum sal. Það er því mikið gleðiefni að sjá að það eru fjórir flokkar af fimm sem standa að þessu áliti og tillögunni, eins og hv. utanríkismálanefnd hefur unnið hana og breytt, og að þeirri ítarlegu greinargerð sem fylgir tillögunni. Þessi góða samstaða sýnir vel allt það besta sem býr í Alþingi Íslendinga. (Gripið fram í: Heyr! Heyr!)

Það er lengi von á einum og við skulum vona að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fylgi okkur á morgun á lokasprettinum í þessari vegferð. Þetta er sannarlega söguleg stund þegar Alþingi á morgun styður stofnun Palestínuríkis og aðild Palestínu að hinum Sameinuðu þjóðum. Sjálfstæði og fullveldi Palestínu er rétt eins og okkar Íslendinga réttur þjóðarinnar, langþráður áfangi sem við náðum fyrir 67 árum á árinu 1944 að verða sjálfstæð og fullvalda þjóð. Þá vorum við herlaus þjóð utan hernaðarbandalaga og þeim áfanga náðum við án nokkurra blóðsúthellinga.

Þetta skref er eins og hér hefur verið bent á rökrétt í framhaldi af yfirlýstri stefnu Alþingis allt frá 1989 þegar lýst var yfir stuðningi við sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og fram til 2010 þegar meiri hluti utanríkismálanefndar fordæmdi árásir Ísraela á skipalestina með hjálpargögnin til Gaza.

Þetta er líka í samræmi við afstöðu íslensku þjóðarinnar til margra ára og í samræmi við réttlætiskennd allra hugsandi manna að gera allt það sem við hvert og eitt og við öll sem þjóð getum gert til að hindra frekari ofbeldisverk og hernað fyrir botni Miðjarðarhafs, gera allt sem við getum til að mannréttindi og mannúðarlög verði virt á þessu svæði, gera allt sem við getum til að koma á friði, sátt og gagnkvæmri viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis. Að því leytinu til er ég hjartanlega sammála niðurstöðunni í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Það skiptir mestu að jafna þjóðréttarlega stöðu Ísraela og Palestínumanna ef friður á að nást á þessu svæði. Þess vegna er viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu rétt og rökrétt skref.

Gerðar hafa verið athugasemdir við þá tæknilegu útfærslu sem hér er um að ræða. Auðvitað er það tæknileg útfærsla þegar við erum að fjalla um þjóðréttarlega stöðu og aðild að alþjóðasamtökum eða hinum Sameinuðu þjóðum. En, herra forseti, þetta er jafnframt mikið tilfinningamál. Auðvitað er þetta baráttumál, réttlætismál, sanngirnismál og mannréttindamál en þetta er líka bara tilfinningamál eins og við heyrðum í frásögn hv. þm. Amal Tamimi. Þetta snýst um fólk, þetta snýst um einstaklinga eins og okkur sem hér erum. Þetta snýst um fólk sem er lokað af innan múra, fólk sem er ríkisfangslaust, fólk sem er flóttamenn í eigin landi, fólk sem á hvergi heima. Allur sá hryllingur sem við höfum upplifað, sem bara munum aftur til 1967, þó ég fari ekki lengra, í gegnum sjónvarp og útvarp, minnir mann stöðugt á það að þó við séum að tala um tæknilega útfærslu, og einhverjir geti haft, í alþjóðasamfélaginu eða jafnvel í þessum sal, einhverjar athugasemdir við að þetta skref gæti truflað eitthvað einhvers staðar, þá snýst þetta fyrst og fremst um fólk. Palestínumenn eiga rétt á því að við Íslendingar styðjum kröfu þeirra til lífs í friði sem sjálfstæð og fullvalda þjóð í eigin landi og það skulum við gera.