140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[22:00]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér ekki miklu við þann málflutning að bæta sem hér hefur farið fram og eftir yfirferð á afgreiðslu utanríkismálanefndar á tillögu til þingsályktunar um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu. En mig langar samt sem áður að bæta við nokkrum orðum, a.m.k. lýsa því yfir að ég er bæði stolt og þakklát fyrir að fá að taka þátt í afgreiðslu þessa máls. Ég er líka þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að heimsækja Palestínu og fá að kynnast aðstæðum fólks sem þar býr og við þær aðstæður sem það hefur mátt búa við mörg undanfarin ár, allt frá því að Ísraelsríki var stofnað og frá sex daga stríðinu 1967. Ísraelsmenn hafa í raun í engu farið að samþykktum og ályktunum Sameinuðu þjóðanna eða annarra ríkja og hafa haldið sínu striki með það að markmiði að ná fullum yfirráðum yfir Jerúsalem og í rauninni að endurskapa ríki Davíðs. Þetta fékk ég að upplifa og við sem vorum í þeim hópi sem var boðið að koma til Palestínu þar sem gestrisni var mikil. Maður fann stolt og sjálfsvirðingu hjá því fólki sem tók á móti okkur, bauð af því sem það gat boðið og mikilvægt að fá að upplifa það. Ég dáðist að styrk þessa fólks að geta setið á sér að taka ekki harðar á móti þeim árásum og svívirðingum sem á þjóðinni dundi.

Ég varð fyrir því í fyrsta skipti á ævinni að vera grýtt á götu úti, grýtt af börnum sem var att upp á húsþök til að grýta okkur ferðamennina sem vorum niðri á götunni. Þeir sem stjórnuðu börnunum við að grýta okkur voru kuflum klæddir prestar, guðsmenn sem stjórnuðu athöfnum barnanna. Því hef ég enga trú á að einhverjir tvíhliða samningar muni skila árangri vegna þess að ekkert jafnræði er á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna í þessum átökum eða í samningaviðræðum. Og meðan Bandaríkjamenn styðja Ísraelsmenn eins dyggilega og þeir hafa gert í einu og öllu hafa Ísraelsmenn þann stuðning sem þeir þurfa til að fara sínu fram. Þeir byggja upp sinn her, þeir fara fram og byggja upp nýjar landnemabúðir þó að það sé fordæmt, þeir halda áfram að leggja vegi inn í landnemabúðirnar, girða vegina af beggja vegna. Þetta er girðing kringum landnemabúðirnar þannig að Palestínumenn komast ekki leiðar sinnar, komast ekki til og frá vinnu, komast ekki til heimila sinna, geta ekki sent börnin í skóla því að búið er að girða svæðið af þannig að ekki er hægt að ferðast innan þess lands sem á að heita Palestína.

Landnemabúðunum hefur ekki verið komið niður tilviljunarkennt. Þeim hefur markvisst verið valinn staður við vatnslindir, á svæðum þar sem landgæði eru mikil eða þar sem hægt er að trufla umferð þannig að Palestínumenn eiga erfitt með að stunda akuryrkju eða komast til vinnu. Þetta er mjög markvisst sett niður.

Það vill þannig til að í Jerúsalemborg hafa trúarsamfélög sett sig niður og þar hefur í raun og veru ríkt ógnarjafnvægi. Gyðingar hafa haft ákveðin svæði, ákveðnar götur, ákveðin hús. Lútherstrúar hafa annað svæði, aðrar götur, önnur hús. Um kaþólikka gildir hið sama. Þetta ógnarjafnvægi sem verið hefur raskast ef eignaskipti verða á húsum. Og það sem hefur gerst líka núna fyrir utan hernám og landnám er að Ísraelsmenn hafa verið að kaupa upp eignir af kaþólsku kirkjunni, þannig að smám saman hafa þeir borað sig inn í Jerúsalem með eignarhluta. Þetta er erfitt fyrir okkur að skilja, en þeir sem búa þarna finna að það jafnvægi sem ríkt hefur er að raskast og það kemur hvað gleggst fram á páskahátíðinni þegar göturnar eru alveg eyrnamerktar. Þannig hafa þeir komið baktjaldamegin inn og í þeim fjárhagserfiðleikum sem kaþólska kirkjan hefur átt hefur hún freistast til að selja eignir sínar. Það er alls staðar vegið að og ójafnvægið er mikið.

Ég verð líka að nefna annað atriði sem mér varð illt af að upplifa og það var múrinn. Ég er orðin það gömul að ég upplifði múrinn sem var reistur á milli Austur- og Vestur-Berlínar og ég stóð undir þeim múr, og ég hef einnig staðið undir þeim múrbrotum sem eftir eru. Múrinn í Berlín er svona eins og eldspýtnastokkur miðað við það að standa undir múrnum sem umlykur borgir og svæði í Palestínu. Hann er svo miklu hærri, hann er svo miklu meiri ógn en nokkurn tíma Berlínarmúrinn. Það að standa undir þeim mikla og háa múr og standa frammi fyrir hermönnum með alvæpni sem þvinguðu fólk til að standa þar í biðröðum til að komast leiðar sinnar á milli hverfa eða milli svæða var ógnvekjandi. Fyrir það vil ég þakka að hafa haft tækifæri til að upplifa það þótt það hafi verið erfitt.

Ég held að maður nái í rauninni ekki að skilja aðstöðu fólks sem býr við þær hörmulegu aðstæður sem eru í Palestínu, hvað þá að setja sig í fótspor fólks sem er landlaust og landflótta. Þriðja til fjórða kynslóð verður að setja sig niður landlaus og ríkisfangslaus í öðrum nágrannaríkjum og kemst hvorki lönd né strönd.

Því vil ég þakka Amal Tamimi fyrir að hafa valið Ísland sem ferðamannaland og fyrir að hafa sest hér að og sýnt okkur þann heiður að taka þátt í okkar þjóðmálaumræðu, vinnu og að vera með okkur í dag og geta lýst aðstæðum sínum þannig að við eigum betur með að skilja hvers vegna það er okkur fagnaðarefni að afgreiða þingsályktunartillöguna.