140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[22:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég hef hlýtt á umræðurnar í kvöld mér til mikillar ánægju, hafði kannski ekki endilega hugsað mér að taka þátt í henni, enda er búið að segja flest sem segja þarf. En ég vil engu að síður segja nokkur orð af þessu sögulega tilefni og mér finnst líka við hæfi að einhver fulltrúi ríkisstjórnarinnar geri það.

Þetta er vissulega söguleg stund og við fylgjum eftir býsna merkri hefð eða sögu sem Alþingi á í þessum efnum. Það má margt segja um okkar ágæta Alþingi en að minnsta kosti í þessu tilviki getur það held ég verið stolt af arfleifð sinni. Það hefur áður mótað áherslur sem voru framsæknar í þessum efnum, svo sem með samþykktinni árið 1989 og aftur má segja 2002 og gerir það að mínu mati enn í dag. Og þó að það sé vissulega rétt sem hér hefur fram komið að fjöldi ríkja hafi þegar viðurkennt Palestínu tilheyrum við þeim hópi og þeim heimshluta þar sem nokkur skortur er á því að menn hafi stigið skrefið til fulls. Það skyldi þó ekki vera að þetta hafi heillavænleg áhrif í framhaldinu á félaga okkar annars staðar á Norðurlöndunum? Og vonandi fleiri.

Ég þakka utanríkismálanefnd fyrir vinnu hennar og ekki síst formanni hennar, Árna Þór Sigurðssyni, sem ég tel að hafi leitt þetta mál ákaflega vel fram. Það er vandlega unnið og nefndarálitið greinargott. Ég fagna sömuleiðis þeirri breiðu samstöðu sem náðist í málinu þó auðvitað hefði verið skemmtilegra að sjá þar fullt hús og eitt nefndarálit en ég upplifi það í sjálfu sér ekki sem djúpstæðan ágreining í málinu. Ég vonast til þess að tillagan fái stuðning allra eða að minnsta kosti leggist enginn gegn henni.

Ég vil líka fagna fyrir hönd utanríkisráðherra sem er mikill áhugamaður um þetta mál en á ekki kost á að vera með okkur þar sem hann er erlendis við opinber skyldustörf. Ég veit að þetta er honum gleðidagur. Hann hefur sýnt kjark og áræði í málinu og rétt að það komi fram að ríkisstjórnin stendur heil og óskipt á bak við þessa tillögu og þá afgreiðslu sem hér er lögð til á henni.

Auðvitað geta menn velt fyrir sér hverju máli skiptir hið litla lóð Íslands og það ber stundum á góma þegar við erum að ræða hin stóru heimsmál. Sumir nota það jafnvel sem rök fyrir því að það sé engin sérstök ástæða fyrir okkur að gera samþykktir eða tjá okkur um svona mál því það muni hvort sem er ekkert um það og enginn taki mark á okkur. Þessu viðhorfi er ég og hef alltaf verið algerlega ósammála. Í fyrsta lagi geymir sagan dæmi um að það getur skipt máli að jafnvel litlar þjóðir þori að taka einhver skref, eins og ég held að flestir séu sammála um að átti við um Ísland þegar við riðum á vaðið og viðurkenndum sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. En aðalatriðið er að þetta snýst ekki um það fyrir mér hvort við reiknum með því að það sem við ákveðum hér og þá afstöðu sem við tökum hafi meiri eða minni áhrif í sjálfu sér á framgang mála úti í hinum stóra heimi. Þetta snýst um það hvað við viljum, hvaða afstöðu við ætlum að taka og við komum því á framfæri og hvernig okkur finnst að hlutirnir eigi að vera. Í þessu tilviki eiga þeir að vera svona og þó fyrr hefði verið.

Við eigum að styðja sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæðisbaráttu þeirra sem eiga rétt til sjálfstæðis. Við eigum að styðja mannréttindabaráttu og taka afstöðu með þjóðum og þjóðarbrotum og minnihlutahópum sem eiga á brattann að sækja.

Í Palestínu er það auðvitað þannig að þetta hefur verið ójafn leikur, ákaflega ójafn leikur. Því miður hefur þessu oft verið stillt upp þannig í umræðunni að þar ættust við tveir jafnsettir aðilar. Fátt er fjær sanni eins og allir vita sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál. Hér erum við að taka afstöðu með og standa við bakið á þeim sem hallar á, sem hefur átt á brattann að sækja, hefur verið órétti beittur og aflsmun hefur verið beitt gegn með mjög grimmilegum hætti þannig að fólk hefur goldið fyrir það í stórum stíl með lífskjörum sínum ef ekki beinlínis lífi. Þannig finnst mér að Ísland eigi almennt að stilla sér upp. Við eigum að taka afstöðu með og styðja þá sem þurfa á stuðningi að halda — þeir stóru og sterku sjá um sig sjálfir, þannig hefur það yfirleitt verið í mannkynssögunni — með friði og með mannréttindabaráttu.

Ánægjulegt er að þetta ber upp á þennan tíma ársins því að á morgun er það ég best veit alþjóðlegur samstöðudagur með palestínsku þjóðinni og það verður sérstaklega ánægjulegt að fá að taka þátt í því að afgreiða þessa tillögu þá.