140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég bar fram skriflega fyrirspurn fyrir nokkru til hæstv. fjármálaráðherra og hélt í sakleysi mínu að þetta væru bara einfaldar spurningar. Meðal annars spurði ég um þær innlánsstofnanir sem fengið hefðu ríkisstuðning og verið teknar yfir af öðrum. Svo spurði ég um fjárhæð innstæðna í þessum stofnunum. Ég fékk svar frá fjármálaráðuneytinu um að í fyrsta lagi gætu þeir ekki svarað fyrr en 20. desember og í öðru lagi að fjárhæð innlána væru ekki opinber málefni í skilningi laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Þetta eru upplýsingar sem birtast á netinu. Það eru upplýsingar sem birtast í ársreikningum félaganna þannig að ég get ekki séð af hverju það er ekki opinbert málefni. Af samkeppnisástæðum getur það varla verið því að þessi fyrirtæki eru gjaldþrota og ekki mikið í samkeppni. Það getur ekki verið að þessar upplýsingar séu ekki opinberar vegna þess að þær séu persónuupplýsingar eða vegna bankaleyndar vegna þess að þær eru jú birtar í ársreikningum, auk þess sem þetta eru bara samanlagðar tölur.

Það sem ég vil fá að vita er hver þróun innlána í þessum stofnunum hefur verið frá því að vitað var að þær yrðu gjaldþrota, þar með þróun ríkisábyrgðarinnar vegna þess að innstæður eru ekki með ríkisábyrgð, en hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að innstæður verði tryggðar. Hann tryggir innstæður í fjáraukalögum, til dæmis í Sparisjóði SpKef og Byr með milljarðatug. Ég vil fá að vita hvernig þessar innstæður þróuðust og hvernig ríkisábyrgð þróaðist, hvort hún óx mikið á vakt hæstv. ráðherra. Hann ætlar sem sagt ekki að svara því. Ég er ákaflega óhress með það, frú forseti, og krefst þess að það verði upplýst.