140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eignarréttur á Íslandi verður ekki afnuminn sisvona. Ef til vill vilja einhverjir að svo verði en það mun þá taka alllangan tíma. Ég nefni þetta vegna þess að Grímsstaðir á Fjöllum eru ekki almenningseign heldur einkaeign, ef það hefur þvælst fyrir einhverjum.

Ég er ekki sérstakur talsmaður þess að Ísland sé í eigu útlendinga eða helftin af því, hvað þá meira, en ég hef hins vegar talað fyrir því að menn taki erlendri fjárfestingu opnum örmum og skoði hana til þrautar. Það er verklagið við ákvörðun hæstv. innanríkisráðherra sem ég hef gagnrýnt. Hann tók aldrei á móti mögulegri erlendri fjárfestingu með opnum huga eða skoðaði aðrar leiðir sem færar voru til að taka á móti þeirri uppbyggingu sem í boði var, til að breikka ásýnd atvinnulífsins á þeim svæðum á Íslandi þar sem það er hvað einhæfast. Fjölga þarf kvennastörfum svo um munar, fjölga þarf umhverfisvænum störfum svo um munar. Það var aldrei skoðað hvort fært væri að fara aðra leið en að maðurinn keypti jörðina sem er vissulega umdeilanlegt og ég er ekki endilega talsmaður þess.

Verklagið er gagnrýnisvert og ég tek undir hvert einasta orð sem Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri í Þingeyjarsýslu, ritar í Fréttablaðið í dag. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Það er áhyggjuefni hversu slæm stjórnsýsluleg meðferð ráðuneytisins er í þessu máli. Það virðast brotnar allar meginreglur góðrar stjórnsýslu. Ekkert hefur verið rætt við málsaðila eða leitað eftir þeirra sjónarmiðum. Á það jafnt við um kaupendur og seljendur. Ekkert samráð er haft við sveitarfélagið Norðurþing sem fer með skipulagsvaldið á Grímsstöðum eða leitað álits þeirra um hvort áform Huangs samrýmist stefnu sveitarfélagsins í atvinnu- og ferðamálum. Ekkert samráð var haft við samtök ferðaþjónustu á svæðinu. Ekkert samráð var haft við aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar sem fara með erlendar fjárfestingar, utanríkis-, viðskipta- eða ferðamál eins og fram hefur komið í fréttum.“

Það ber að harma. (Forseti hringir.) Þetta er verklag sem á ekki að viðgangast á Alþingi og er framkvæmdarvaldinu ekki samboðið. Ég heiti á ferðamálaráðherra að taka frumkvæði í þessu máli.