140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Eigum við ekki að tala íslensku um það ástand sem ríkir í landinu? Það blasir við öllum að ríkisstjórnin er ekki starfhæf. (Gripið fram í: Jú, jú.) Hún er að liðast í sundur vegna stöðugra átaka og innanmeina dag eftir dag; dag eftir dag eftir dag. Og nú á að lappa upp á ríkisstjórnina með því að losa sig við hæstv. sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason af því að það hefur verið stöðug krafa Samfylkingarinnar í marga mánuði, nánast frá upphafi þessa stjórnarsamstarfs, að hann skyldi víkja. Hann hefur þvælst fyrir, menn hafa reynt að losa sig við hann með því að breyta lögum, það áttu að koma fram breytingar á stjórninni með þeim hætti að forsætisráðherra gæti losað sig auðveldlega við Jón Bjarnason. Það mistókst. Áfram skal haldið. Og nú hefur það gerst að Vinstri hreyfingin – grænt framboð, undir forustu hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar ætlar að gefa eftir gagnvart samstarfsflokknum í þessu máli, gefa eftir og losa sig við þann ráðherra sem stendur fast á stefnu flokksins. Formaðurinn ætlar að gefa eftir gagnvart Samfylkingunni, allt til þess að halda í ráðherrastólana, allt til þess að halda í völdin, alveg án nokkurs tillits til þess aðgerðaleysis og ráðaleysis sem þessi ríkisstjórn hefur sýnt þegar kemur að því að bæta hag fjölskyldna og heimilanna í landinu.

Þetta er hinn mikli árangur sem virðulegir þingmenn stjórnarliðsins guma af. Þetta er árangurinn. Þetta felst í stöðugu innanmeini, frekju og yfirgangi undir forustu hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, og nú er það niðurstaða formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að gefa eftir gagnvart þessum flokki svo áfram megi halda með hennar stefnu að vopni, hana eina. Þetta er niðurstaðan og af þessu ætla menn að guma.