140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Á þeim tíma sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gegndi embætti heilbrigðisráðherra lagði hún mikla áherslu á fylgispekt við niðurskurðaráætlun AGS, ekki síst í heilbrigðismálum. Niðurskurðurinn sem lagður var til í fjárlagafrumvarpinu fyrir þetta ár er á ábyrgð hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur.

Við hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason og Atli Gíslason marglýstum andstöðu okkar við tillögur hennar um niðurskurð í heilbrigðismálum án þess að það bæri nokkurn árangur. Við óttuðumst að niðurskurðurinn vægi að grunnþjónustu velferðarkerfisins og kvennastörfum þvert á stefnu VG.

Frú forseti. Nú hefur komið í ljós að niðurskurðartillögur hv. þingmanns í embætti heilbrigðisráðherra voru óframkvæmanlegar. Fresta hefur þurft 600 millj. kr. niðurskurði á þessu ári fram til næsta árs. Ég fagna þessari frestun hæstv. velferðarráðherra, en sakna niðurskurðaráætlunar sem tryggir að niðurskurður á einu sviði heilbrigðiskerfisins komi ekki fram á öðru sviði eins og gerst hefur frá árinu 2008.

Frú forseti. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur staðfest ótta minn með því að gera tillögu um minni niðurskurð hjá heilbrigðisstofnunum sem nemur 400 millj. kr. og ég fagna því en, frú forseti, það liggur ekki fyrir raunhæf áætlun um niðurskurð í heilbrigðismálum og þess vegna mun ég hafna niðurskurðartillögum norrænu velferðarstjórnarinnar (Forseti hringir.) þegar kemur að niðurskurði í heilbrigðisgeiranum.