140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Í síðasta mánuði sátum við þingmenn í þingmannanefnd EFTA fund í Brussel og þangað kom gestur. Sá gestur var Svein Harald Øygard sem hefur einhverja reynslu af efnahagslífinu á Íslandi. Hann fór mjög gaumgæfilega yfir þær hremmingar sem við Íslendingar höfum staðið frammi fyrir, hvernig við tókum á því í byrjun og síðan talaði hann um framtíðina. Hann sagði með fullri virðingu fyrir „ykkur Íslendingum sem eruð hér í salnum“, þ.e. fundarsalnum úti í Brussel: Þið hafið enga efnahagsstefnu. Þið hafið enga stefnu til framtíðar, hvernig á að byggja upp atvinnutækifæri o.fl. Þetta var ekki stjórnarandstöðuþingmaður að tala á þessum fundi, heldur maður sem gegndi um tíma stöðu seðlabankastjóra á Íslandi.

Það er einmitt til þessara orða sem ég hugsa núna þegar við erum að ræða málefni ríkisstjórnarinnar. Enn og aftur ræðum við um vandræðaganginn og setjum kraftinn í það hvað ríkisstjórnin er að gera í staðinn fyrir að tala um framtíðarsýnina, um stefnu til framtíðar, hvernig við komum 14 þús. manns aftur til starfa, hvernig við leysum skuldavanda heimilanna og förum af stað með atvinnutækifæri. [Kliður í þingsal.] Ef þetta er svona allt í góðu, eins og stjórnarþingmenn kalla fram í, segi ég: Fínt, látum þá á það reyna, boðum strax til kosninga. (Gripið fram í: Látum reyna á þetta.) Látum reyna á þetta sem fyrst þannig að við getum farið að tala um stjórnmálastefnur, um það hvernig við ætlum að leysa úr vanda heimilanna, fjölskyldnanna og atvinnulífsins. Við erum orðin þreytt á því að á innan við einni viku er fjármálaráðherra meðal annars gerður afturreka með tvísköttunaráform sín, á einni viku er keflið farið yfir til hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar og hann kemur vandræðakeflinu yfir á Jón Bjarnason og Jón Bjarnason situr núna í skítnum, má í rauninni segja, sem er meðal annars skapaður af ríkisstjórn Íslands.

Við erum orðin þreytt á þessu. Boðið til kosninga þannig að við getum staðið frammi fyrir þjóðinni og sagt hvert við viljum stefna.