140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

afsökunarbeiðni þingmanns.

[14:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hlýt að taka tillit til afsökunarbeiðni hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, en ég get ekki leynt því að ég tel að ummæli hans hafi verið smánarleg og ég tel að forseti Alþingis hefði átt að gera við þau athugasemd. Sérstaklega hlýtur maður að horfa til þess að á þingpöllum í dag er hópur fólks (Gripið fram í.) frá Palestínu sem hefur búið við ofríki og óstjórn þess manns sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson svo smekklega taldi upp í ræðu sinni og líkti formanni þingflokks Samfylkingarinnar við. (Gripið fram í: Neei.) [Kliður í þingsal.] Þetta gerði þingmaðurinn. (Gripið fram í: Bara að ljúga þessu.) Það var ekki hægt að skilja hann öðruvísi [Kliður í þingsal.] og það er oft hjartanu kærast sem tungunni er tamast. (Gripið fram í: Hvaða, hvaða.) Þetta er það sem þingmaðurinn var að hugsa um. Hann er þó maður að meiri fyrir að hafa komið hingað og beðist afsökunar. [Kliður í þingsal.]