140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[14:12]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er söguleg stund þegar við nú göngum til atkvæða um viðurkenningu Íslands á fullveldi og sjálfstæði Palestínu á alþjóðlegum samstöðudegi Sameinuðu þjóðanna með frelsisbaráttu Palestínu.

Ísland hefur oft skipað sér í sveit þeirra ríkja sem standa í stafni í sjálfstæðis- og mannréttindabaráttu á alþjóðavettvangi. Alþingi hefur áður samþykkt að virða skuli sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar. Nú hafa Palestínumenn óskað eftir stuðningi við að verða fullgildur aðili að Sameinuðu þjóðunum og þannig kallað eftir stuðningi ríkja við sjálfstæðisbaráttu sína. Því kalli eigum við Íslendingar að svara með stolti og gleði.

Palestínska þjóðin hefur um áratugaskeið lifað við undirokun og mannréttindabrot. Hv. þm. Amal Tamimi flutti í þingsal í gær litla en grípandi reynslusögu sem snart okkur öll sem á hlýddum. Palestínska þjóðin á lögmætan rétt til fullveldis og sjálfstæðis og það er forsenda friðar fyrir botni Miðjarðarhafs að þjóðirnar sem þar hafa deilt verði jafnari að þjóðarétti en þær eru í dag. Lítil þúfa á Íslandi getur velt því hlassi sem til þarf.

Ég óska öllum Palestínumönnum til hamingju með daginn í dag og votta þeim virðingu mína í baráttu fyrir sjálfstæði.