140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[14:13]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vona að það skref sem íslensk stjórnvöld eru um það bil að stíga með skilyrðislausri viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu verði palestínsku þjóðinni til góðs. Ég vona enn fremur að hún verði ekki til þess að draga úr líkum á friði í Miðausturlöndum. Friður í þessum heimshluta er að sjálfsögðu það markmið sem við getum öll sameinast um.

Ég hefði kosið að öðruvísi hefði verið farið að. Ég hefði kosið að við Íslendingar værum samstiga þeim þjóðum sem nálgast hafa málið með þeim hætti að ráðlegast væri að tryggja friðinn fyrst til að lýsa mætti yfir sjálfstæði í framhaldinu. Það er afstaða velflestra þeirra sem mest hafa látið sig málið varða, kvartettsins svokallaða, einnig vinaþjóða okkar eins og Noregs, Svíþjóðar, Bretlands, Bandaríkjanna, Þýskalands, Kanada, Evrópusambandsins og svo mætti lengi telja.

Þessi leið er að verða ofan á og á henni ber ríkisstjórnin ábyrgð. Ég get ekki stutt hana. Mál af þessum toga eigum við Íslendingar að vinna í sameiningu, leggja okkur fram um að mynda samstöðu um utanríkisstefnu í öllu tilliti. Það hefur því miður ekki verið gert hér og við sjálfstæðismenn munum sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.