140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[14:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hún er fagnaðarefni, sú breiða samstaða sem tekist hefur um þetta mál í þinginu. Sjálfstæði þjóða og sjálfsákvörðunarréttur er forsenda fyrir varanlegum friði. Það á við í okkar heimshluta og það á ekki síður við í Miðausturlöndum.

Við í utanríkismálanefnd getum verið stolt af þessu máli og þingið allt sem hér kemur að afgreiðslu málsins á þessum alþjóðlega samstöðudegi með Palestínu. Það gerir þó jafnframt að verkum að því miður getur ekki verið með okkur í dag hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson vegna skyldustarfa erlendis svo það er full ástæða til að færa ráðherranum, að honum fjarstöddum, sérstakar þakkir fyrir frumkvæði hans og atfylgi í þessu máli.