140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er ég í liði með ríkisstjórninni. Það þarf vart að spyrja þeirrar spurningar og ég tel ríkisstjórnina ekki vera að svíkja þá sem lökust hafa kjörin. Ég bendi á að lífeyrisþegar hafa tekið á sig ýmsar þrengingar eins og allir aðrir í íslensku samfélagi eftir hrun fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins. En við fjárlagagerð hefur verið staðinn vörður um kjör þeirra sem hafa allra lökustu kjörin af lífeyrisþegum og ég vil minna á að í ársbyrjun 2009 voru lágmarksframfærslutryggingar stórhækkaðar. Á árinu 2011 hafa bætur lífeyrisþega hækkað um 8,1%. Ég skil vel að lífeyrisþegar, eins og margir aðrir hópar sem búa við tiltölulega þröng kjör, hefðu gjarnan viljað sjá frekari hækkanir en ég tel ríkisstjórnina hafa með aðgerðum sínum frá því að hún tók við völdum hafa eftir fremsta megni reynt að verja þá sem lökust kjör hafa.