140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir framsögu hennar. Eins og fram hefur komið í andsvörum þeirra sem talað hafa á undan mér er ekki tekið á stórum liðum í breytingartillögum hjá meiri hlutanum. Stærsti einstaki liðurinn er væntanlega það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir fór í gegnum og við lásum öll yfir morgunkaffinu í morgun í auglýsingu frá ASÍ.

ASÍ segir að samningar hafi ekki staðist, það sé sameiginlegur skilningur ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins hafa staðfest að bætur ættu að hækka í samræmi við lægstu laun þannig að í staðinn fyrir 5.500 kr. hækkun ætti að vera 11 þús. kr. hækkun.

Formaður fjárlaganefndar ber ábyrgð á því að tryggja að við getum haldið okkur innan þess ramma. Í yfirlýsingu miðstjórnar ASÍ er talað um að hyggist ríkisstjórnin halda áfram með þetta — hún talar líka um ákveðið fé á greiðslu atvinnuleysisbóta — verði því mætt af fullri hörku. Ég held að við gerum okkur flest grein fyrir því hvað það þýðir ef aðilar vinnumarkaðarins hóta því að einhverju verði mætt af fullri hörku.

Brátt rennur upp sá tími þar sem hægt verður að endurskoða kjarasamninga. ASÍ og Samtök atvinnulífsins eru sammála um að ríkisstjórnin virði ekki samninga. Hvernig ætlar formaður fjárlaganefndar að bregðast við því og tryggja að ró geti orðið á vinnumarkaði og að menn standi raunverulega við þá samninga sem þeir voru að undirrita og birtu í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni?