140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að Alþýðusamband Íslands hefur haldið uppi háværri gagnrýni á tillögur ríkisstjórnarinnar og hafa Samtök atvinnulífsins nú bæst í lið með þeim. En það er bara alls ekki svo að Alþýðusamband Íslands hafi prókúru á sannleikann varðandi hvað ákvarðað var í þessum samningum. Það eru mjög deildar meiningar á milli þeirra sem stóðu að þessum samningum auk þess sem bent var á að bætur lífeyrisþega hafi hækkað umfram laun á yfirstandandi ári.

Sé það svo að samið verði um frekari hækkanir trúi ég því að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins verði jafnfús til yfirlýsinga um nauðsyn þess að auka tekjur ríkissjóðs.