140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir hans ræðu. Við erum sammála um margt, annað ekki, kannski meiningarmunur, enda eðlilegt þar sem við erum ekki í sama flokki.

Mig langaði að spyrja hann út í vinnu fjárlaganefndar og þá staðreynd að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki farið sérstaklega yfir tekjuhluta fjárlagafrumvarpsins. Formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, taldi að sú vinna hefði verið unnin í fjárlaganefnd. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að sú vinna hafi hvorki verið fugl né fiskur og alls ekki nægjanleg til að taka á þessum gríðarlega stóra hlut fjárlagavinnunnar á hverjum tíma.