140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi óska þess að ég hefði getað þakkað hv. þingmanni fyrir andsvarið, en ég taldi nú eftir atburði dagsins að nóg væri komið af því að vitna til erlendra stjórnmálaleiðtoga í samanburði við íslenska stjórnmálamenn. Ég tel algjörlega óþarft að draga umræðuna niður á það plan sem hér var reynt að gera og taldi að menn hefðu lært eitthvað af atburðum dagsins. Svo virðist ekki vera.

Áður en ég held lengra lýsi ég mig tilbúinn til að ræða þessa tillögu í fjárlaganefnd, að sjálfsögðu. Ég er þannig gerður að ég vil frekar koma málum fram en standa í tilgangslausu karpi um hluti.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði hér um hagvöxt og annað þvíumlíkt, þá byggir sá hagvöxtur sem nú er spáð nær eingöngu á einkaneyslu sem mestan part er drifin áfram á úttekt almennings á sparnaði sínum. Það er ekki til nokkurs skapaðs hlutar. Við sjálfstæðismenn höfum bent á að stærsta hindrunin í vegi fjárfestingar nú um stundir virðist vera pólitískt ósamkomulag. Það er ekki gott. Því ber að ryðja úr vegi. Ekki er hægt að bera stjórnarandstöðunni á þingi það á brýn að hún standi í vegi fyrir ýmsum þjóðþrifaráðum. Það er ráðandi stjórnvald sem ber höfuðábyrgðina á því og því miður hefur það ekki tekist og ekki er endalaust hægt að afsaka sig með því að eitthvað hafi gerst fyrir þremur eða fjórum árum. Það er fullt af tækifærum sem ber að nýta, en því miður næst ekki pólitísk samstaða um það. Það eru í rauninni ríkjandi stjórnvöld sem bera fulla ábyrgð á þeim þáttum.