140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ekki er alltaf hægt að kenna því um sem gerðist fyrir þremur árum. Það breytir ekki því að það sem gerðist, ekki bara fyrir þremur árum heldur í aðdraganda síðastliðinna þriggja ára, var gríðarleg skuldasöfnun íslenskra fyrirtækja sem olli því að þó ekki hefði orðið hrun hefðu mörg fyrirtæki verið í því ástandi að þau hefðu verið illa hæf til frekari fjárfestinga.

Ég ætla að taka áskorun hv. þingmanns um málefnalegan málflutning, sem ég tel mig nú yfir höfuð stunda hér í þinginu, (KÞJ: Oftast.) og ítreka ánægju mína með þessa breytingartillögu. Ég held að það megi kannski gera á henni örlitlar breytingar. Ég held líka að hún sé eins og aðrar tillögur, þær batna frekar en versna við ítarlega umræðu í nefndinni. Þó að ég viti að þið ykkar á milli farið yfir þetta held ég að það sé mikilvægt að við öll nefndin, líka í ljósi þeirrar umbótavinnu sem við eigum fyrir höndum, förum í góða umræðu um þessa tillögu. Mér þætti ákaflega mikilvægt að við gætum geymt hana til 3. umr. til að ná að fjalla betur um hana. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir þessa málefnalegu og góðu tillögu.