140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og yfirferðina á nefndaráliti sínu. Ég get tekið undir margt sem kom fram í ræðu hans en þó alls ekki allt. Ég vil sérstaklega taka undir það sem hann sagði um það sem snýr að löggæslunni og líka það sem snýr að kirkjunni. Eins og reyndar hefur verið ákveðið í hv. fjárlaganefnd liggur einmitt fyrir samkomulag um að boða þá aðila sem fara með málefni kirkjunnar á fund milli 2. og 3. umr. til að fara yfir þau atriði sem hv. þingmaður rakti í ræðu sinni.

Það er reyndar alveg með ólíkindum að lesa fréttir um það, eins og maður gerði í dag, og maður er eiginlega bara sleginn eftir það, að ástandið sé orðið þannig í höfuðborginni að grunnskólabörn mega ekki einu sinni fara með faðirvorið í kirkjunum. Maður veit eiginlega ekki hvert þjóðfélagið stefnir. En ekki meira um það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það sem kemur fram í breytingartillögum hans um séreignarsparnaðinn. Hv. þingmaður rekur það að tekinn verði helmingurinn af séreignarsparnaðinum, þ.e. 40 milljarðar sem mundu skila sér í ríkissjóð. Þetta er tillaga sem við sjálfstæðismenn höfum flutt margoft og skoðað vel. Eftir því sem við höfum komist að er í raun ekki framkvæmanlegt að gera þetta svona, heldur verði að stíga skrefið til fulls og taka allan séreignarsparnaðinn og skattleggja hann. Það er mjög flókið og erfitt að halda utan um hvað er búið að skattleggja og hvað ekki og þar af leiðandi yrði mikil hætta á tvísköttun. Þess vegna höfum við lagt fram að gengið yrði alla leið og allur hlutur ríkisins tekinn. Þetta er nú bara eitt sparnaðarform á móti öðru. Annars vegar leggur maður inn í séreignarsparnað og geymir skattgreiðslurnar en hins vegar ef maður leggur peninginn á bankabók er tekinn af honum skattur.

Mig langar að biðja hv. þingmann að fara aðeins yfir hvernig hann sér þetta (Forseti hringir.) framkvæmt og hvort hann hafi ekki áhyggjur af því sem ég benti á í þessu andsvari.