140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held einfaldlega að sú gagnrýni sem hefur komið fram á tillögur Sjálfstæðisflokksins um að skattleggja séreignarsparnaðinn fyrir fram eigi að hluta til rétt á sér, það verði einfaldlega að horfa til þeirra. Það er verið að skerða framtíðartekjur lífeyrisþega hvort sem honum þykir það betra eða verra. Þess vegna leggjum við til og höfum lagt til að tekinn verði helmingur og eins og ég sagði og útskýrði áðan tel ég það mjög gerlegt. Ég verð hins vegar að taka það fram sérstaklega, þó að það sé kannski ekki hluti af svari mínu, að ég hef áhyggjur af stefnu stjórnvalda hvað varðar séreignarlífeyrissparnaðinn, það eru líkur á því að hann verði meira og minna sleginn af núna um áramótin en ég hefði einmitt haldið að menn ættu að auka þar í. Ég held að þetta hafi það mikil áhrif á lífeyrissjóði landsins auk þess sem ég held að við ættum frekar að hvetja til sparnaðar en annars.

Við höfum lagt til að auka þorskkvótann um 20 þús. tonn. Ég vona, eins og ég var jákvæður fyrir þeim breytingartillögum sem 1. minni hluti sjálfstæðismanna hefur lagt fram, að hv. þingmaður sé þá reiðubúinn að greiða atkvæði með þessum tillögum. Eins og ég útskýrði hér í ræðu eru þessir útreikningar byggðir á tölum. Þegar við lögðum tillögurnar fram á sínum tíma, það er að verða ár síðan og þarfnast væntanlega uppfæringar, leyfi ég mér að fullyrða að þær tölur eru samt mjög sambærilegar við þær sem koma fram í álitinu.