140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að gefa þessari stöðu einkunn heldur var ég að lýsa staðreyndum, að skuldir ríkissjóðs rýrnuðu vegna verðbólgu. Ég er hjartanlega á móti verðbólgu, sérstaklega þar sem sparnaður er of lítill eins og á Íslandi, þá getur hún verið stórhættuleg vegna þess að sparnaður getur hreinlega horfið. Í dag erum við með 80% af innstæðum óverðtryggð í bönkunum, sennilega vegna þess að fólk treystir ekki bönkunum til að binda féð í þrjú ár. Þar eru vextir núna 3% hæstir í 5% verðbólgu. Þessi 3% eru sköttuð með 20% skatti þannig að fólk tapar á því að sýna ráðdeild og sparnað, sem ég tel vera mjög slæmt vegna þess að það skortir lánsfé, það skortir frjálsan sparnað á Íslandi. Í löndum þar sem sparnaður er hins vegar of mikill eins og í Þýskalandi, Japan og víðar, getur þetta verið ágætistæki til að minnka hvatann til sparnaðar. Hann getur verið of mikill og hvatinn til eyðslu getur verið of lítill í þessum löndum.

Ég vildi bara benda á það af því að það er staðreynd. Þegar menn horfa á vaxtagreiðslur ríkisins er stór hluti af þeim verðbætur sem ekki eru gjöld. Þess vegna er staðan kannski ekki eins slæm eins og hv. þingmaður vill vera láta, myndin er ekki eins dökk. Það væri kannski ágætt að fá upplýsingar fyrir 3. umr. um hvað ríkissjóður borgar í raunverulega vexti umfram verðbólgu í þeim myntum sem hann skuldar í.