140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra fór oft og mjög ítarlega yfir það í ræðu sinni hvernig hæstv. ríkisstjórn, norræna velferðarstjórnin, er núna að hlífa þeim sem minna mega sín og hlúa að þeim sem minna hafa á milli handanna hvort sem það er í heilbrigðismálum, velferðarmálum eða skattamálum og þar fram eftir götunum. En ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alltaf á hvaða vegferð ríkisstjórnin er og sérstaklega þegar hún kennir sig við norræna velferð.

Þar sem ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er mjög mælskur langar mig að spyrja hann einnar spurningar: Hvernig samræmist það norrænni velferð að á sama tíma og verið er að loka líknardeildum er verið að bæta 80 milljónum við listamannalaun? Hvernig samræmist það norrænni velferðarstefnu?