140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði að reyna að vera kurteis og hófsamlegur í skoðanaskiptum við hv. þingmann en ég held að hann ætti aðeins að hugsa sinn gang í sambandi við það hvernig hann talar um menningu og listir og hlutverk listamanna í landinu. Hefur hv. þingmaður lesið skýrsluna um svokallaðar skapandi greinar og áttar hann sig á því hvað þetta er stór velta í samfélaginu, hversu mörg störf og mikil verðmætasköpun á sér stað í landinu á þeim grunni sem er lagður með menningu og listum og er grunnurinn sem sú sköpun síðan hvílir á, sem er stór atvinnugrein í landinu, allt sem snýr að menningu og framleiðslu menningarverðmæta, afþreyingu og öðru slíku? Það kemur í ljós að þetta er stóriðja, raunveruleg stóriðja sem skapar gríðarleg verðmæti og grunnurinn er lagður með menntun og með því að styðja við listsköpun og listamenn. Þetta á sér þann bakgrunn sem ég sagði, að gert var sérstakt samkomulag um að reyna að styðja við þá starfsemi eins og ýmislegt fleira og búa til störf í þessum efnum og það skýrir þetta. (Forseti hringir.)

Landspítalinn hefur sjálfur útfært sínar aðhaldsaðgerðir og reynir að gera það á þann hátt sem hann telur skynsamlegast. (Forseti hringir.) Hann getur auðvitað haft skoðanir á því hvort hann eigi að gera það öðruvísi eða ekki svona (Forseti hringir.) og Alþingi getur út af fyrir sig ákveðið ef það vill að taka völdin af stjórnendum (Forseti hringir.) Landspítalans í þeim efnum og segja að þeir eigi að spara hér en ekki þar. (Forseti hringir.) En þá er það líka eitthvað sem menn verða að ákveða hér.

(Forseti (SIJ): Forseti minnir þingmenn og ráðherra á að virða ræðutíma.)