140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hægt að viðurkenna að við mættum gjarnan styðjast við fastmótaðri verklagsreglur á þessu sviði, það ætla ég að gera. Við höfum rætt það mikið í fjármálaráðuneytinu að það þurfum við að gera því að það hefur ekki verið nógu fastmótað verklag og gott samræmi í því hvernig með þessi mál er farið. Það er að vísu ákveðin hefð kannski og verklag sem við höfum verið að reyna að þróa sem er á þann veg að frysta gamlan skuldahala ef viðkomandi stofnanir eru að ná tökum á sínum rekstri og láta þær þá ekki gjalda þess í bili og verðlauna þær svo ef þær ná árangri í þeim efnum.

Síðan er það auðvitað þannig að þegar áföll verða tímabundið af einhverjum ástæðum í rekstri stofnana hafa menn iðulega gripið til þessa ráðs einfaldlega til að kaupa sér tíma til að takast á við ástandið og koma þeim rekstri í lag, að geyma þær skuldir og sjá til hvað verður, þær liggja þá vaxtalausar og viðkomandi stofnunum að kostnaðarlausu. Hluti af því að ná tökum á rekstrarvanda Landspítalans var einmitt að koma Landspítalanum (Forseti hringir.) til aðstoðar í sambandi við hans gömlu uppsöfnuðu skuldir og aðstoða hann við með fjármögnun að gera upp við birgja þannig að hann væri ekki að borga dráttarvexti og geyma (Forseti hringir.) skuldirnar á meðan spítalinn var að ná sjó.