140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef það er svo sem hv. þingmaður segir að ástandið á Suðurnesjum varðandi sjúkraflutningamál sé komið niður fyrir öryggismörk bið ég um upplýsingar um það mál því að þannig á það ekki að vera. (Gripið fram í.) Þá skal ég einfaldlega ganga í það mál. En ég áskil mér rétt til þess að fara ofan í það því að ég fæ mikið af beiðnum af ýmsum toga þar sem menn mála hlutina heldur sterkt þegar þeir reyna að sækja á um fjárveitingar, en að sjálfsögðu er það ekki ætlunin að bráðnauðsynleg þjónusta af þessu tagi fari nokkurs staðar niður fyrir öryggismörk. Það er líka ábyrgðarhluti að tala um það þannig og sérstaklega að nefna þar mannslíf.

Varðandi tollinn hefur verið látin bíða í mörg ár algjörlega óumflýjanleg áætlun um að byrja að uppfæra búnað tollsins og tölvukerfi og þróa það til nútímavegar. Því miður hefur tollurinn dregist aftur úr ýmsum öðrum kerfum, mikilvægum kerfum, hann er mun lakar rafvæddur en til dæmis skatturinn. Þetta er fyrsta skrefið í því að mæta óskum frá því embætti (Forseti hringir.) sem synjað hefur verið mörg undanfarin ár um að geta lagt af stað í þessi verkefni og beiðnin var satt best að segja upp á miklu hærri fjárhæð.