140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er eins ósammála og hugsast getur þegar hæstv. fjármálaráðherra heldur því fram að hlutirnir gangi vel, að búið sé að ná einhverjum stórkostlegum árangri, vegna þess að á bak við þær fullyrðingar sem maður heyrir liggja engin gögn.

Ef við skoðum til dæmis hagtölur setti ríkisstjórnin sér þau markmið að á árinu 2011 yrði hér um 4,4% hagvöxtur. Hann er langt frá því. Fyrsta spurningin er: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að ná upp hagvexti á næsta ári?

Ég gagnrýni líka þá framsetningu að segja að framlög til velferðarmála hafi verið aukin. Ástæðan fyrir því er sú að verið er að bæta í Atvinnuleysistryggingasjóð vegna þess að það er aukið atvinnuleysi. Telja menn sér það til tekna þegar umræða um fjárlög fer fram?

Ein spurning að lokum: Hvað með verðbólguna? Átti verðbólgan ekki að vera komin niður í 1,7% á þessu ári samkvæmt þeim markmiðum sem hæstv. fjármálaráðherra setti sér sjálfur (Forseti hringir.) og vísað er ítrekað til í skýrslunni frá 2009? (Forseti hringir.) Nú mælist hún vel yfir 4%.