140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:42]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu frá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni. Við höfum stundum verið á sömu blaðsíðu þegar kemur að uppbyggingu atvinnulífsins og ég ræddi um það í ræðu minni áðan að lykillinn að framfarasókn í þeim málum væri að breikka ásýnd atvinnulífsins, hafa ekki öll eggin í sömu körfu, reyna að sækja fram á breiðu sviði atvinnumála hvort heldur er í ferðaþjónustu eða iðnaði eða jafnvel í opinberri þjónustu og verslun og viðskiptum.

Ég kom inn á það í tölu minni, frú forseti, að mér fyndist þjóðhagsspáin fyrir næsta ár vera tiltölulega varfærin miðað við þau teikn sem eru á lofti. Ekki er gert ráð fyrir neinni uppbyggingu á Norðausturlandi enda þótt nú þegar sé komið í ljós að þar séu augljós sóknarfæri sem farið verður í á komandi vikum og mánuðum. Ég hef heimildir fyrir því að þar séu að fara af stað framkvæmdir sem geta varað í hagvexti vel inn í næstu ár, jafnvel áratugi, verið er að tala um uppbyggingarskeið sem vari í tíu til fimmtán ár og ekki er gert ráð fyrir því í spánni. En auðvitað, og þar veit ég að við hv. þingmaður erum sammála, megum við ekki klúðra þessu tækifæri með því að leggja slíkar kvaðir og slík gjöld á þennan iðnað, sem við erum að reyna að gera fjölbreyttari en verið hefur, að við sláum hann út af borðinu og eyðileggjum samkeppnishæfni Íslands við nágrannalöndin. Þar erum við sennilega sammála.