140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:46]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ísland er eyland en þó ekki meira eyland en svo að það er snar þáttur af alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og það er ekki bara hér heima heldur líka víða erlendis, og í nágrannalöndum okkar, sem fyrirtæki hafa verið mjög varfærin í fjárfestingum sínum á undanliðnum vikum, mánuðum og missirum. Fjárfestingar á Íslandi hafa goldið þess og í sjálfu sér ekkert við því að gera. Ástandið á heimsmarkaði er einfaldlega þannig að fyrirtæki í iðnaði og öðrum greinum eru mun varfærnari en var í galskapnum sem ríkti á árunum fyrir hrun og vonandi hafa menn lært eitthvað af því.

Hægt og sígandi eru fyrirtækin samt að taka við sér. Ég veit til þess að nú er að komast skriður á mál á þessu ágæta landsvæði og hefði ég nú viljað að atvinnulífið þar efldist í breiðari skilningi, að við tækjum líka vel á móti öðrum kostum í atvinnumálum þar, en þar eru blikur á lofti, ég á nú eftir að sjá það stranda. Ég tel að við getum enn tekið á móti mikilli og metnaðarfullri fjárfestingu í ferðaþjónustu á því svæði, þó með öðrum hætti en fyrst var kynnt, og veit ég að hæstv. ferðamálaráðherra ætlar að hafa frumkvæði að því og vonandi að það gangi eftir.

Ég legg áherslu á að fjölbreytt iðnaðarfyrirtæki, sem ég tel vera mjög mikilsverða stoð í íslensku atvinnulífi, eiga að greiða jafnmikið til samfélagsins og önnur fyrirtæki í landinu en ekki umfram það. Þau eiga að vera á pari við fyrirtæki í samkeppnislöndum okkar í þeim efnum og ég tel að þau séu einmitt að taka við sér í því ljósi vegna þess að skattaðstæður eru svipaðar og annars staðar, (Forseti hringir.) en orkan á betra verði.