140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi orð hv. þingmanns hér áðan um hagræðingarkröfu í heilbrigðisþjónustu hugsa ég að við deilum sömu skoðunum varðandi mikilvægi heilsugæslunnar og heilbrigðisþjónustunnar.

Það sem mig langar hins vegar að velta upp er að það er alveg hárrétt að töluverð breyting er á fyrstu tillögum varðandi hagræðingu og niðurskurð í heilbrigðisþjónustu hjá heilbrigðisstofnunum og að sjálfsögðu á spítölunum. Það sem ég átta mig hins vegar ekki á er að sömu aðferðafræði skuli ekki vera beitt, að mér sýnist, á allar stofnanirnar. Einhverjar stofnanir fá sérstaka lausn, þ.e. beðið er með að taka á ákveðnum vandamálum eða þeim frestað um einhvern tíma, einhvers staðar er verið að nota uppsafnaðan höfuðstól til að minnka niðurskurðinn. Þetta þýðir að vandamálið verður enn til staðar að ári, næsta haust, þegar þarf að semja ný fjárlög. Það er ekki verið að útkljá vandamálið.

Þó svo að niðurskurðurinn sé minnkaður um 20 milljónir einhvers staðar o.s.frv. er hann samt sem áður mikill, eins og hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem hann verður 60 milljónir. Að mínu viti er þessum heilbrigðisstofnunum einfaldlega enn ætlað að skera of mikið niður. Við þekkjum það mætavel að hvert starf sem þarf að skera niður, hvort sem það er á Selfossi, í Þingeyjarsýslum, á Sauðárkróki eða Egilsstöðum, er dýrmætt og í hlutfalli við höfuðborgarsvæðið er kannski eitt starf á við einhverja tugi.

Ég hvet hv. þingmann til að skoða þetta mjög vandlega áfram þar sem ég veit að 3. umr. er eftir.