140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:51]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er athyglisverð spurning sem kemur frá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Það er einmitt af þessum ástæðum sem ég áskildi mér rétt þegar við tókum út málið í hv. fjárlaganefnd til að skoða áhrif þessara tillagna betur á milli 2. og 3. umr. og lét bóka það í nefndinni. Ég tel eðlilegt að þingmenn, sem eiga að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, skoði þetta betur á milli umræðna.

Nú er það í sjálfu sér lán í óláni og ákveðið gleðiefni í allri þeirri sorgarsögu sem ríkisfjármálin hafa verið eftir hrun að þrátt fyrir ríkt aðhald í heilbrigðiskerfinu höfum við ekki þurft að skerða þjónustuna svo nokkru nemi. Við sjáum að starfsmenn í heilbrigðisþjónustunni, stjórnendur, hafa tekið þetta aðhaldshlutverk sitt mjög alvarlega og leitað og lagt sig í líma við að skera niður en þó þannig að það bitni ekki á þjónustunni. Ég vil einfaldlega, frú forseti, nota þetta tækifæri til að hrósa stjórnendum heilbrigðisstofnana á höfuðborgarsvæðinu og víðar um landið fyrir það hvernig þeir hafa gengið til þessara verka og varið þjónustuna af mannúð, varið starfsfólk eins og þeir hafa frekast getað en umfram allt þjónustuna. Það er merkilegt til þess að hugsa að þrátt fyrir sumpart hlutfallslega mikið aðhald, sem við höfum farið fram á í heilbrigðiskerfinu umfram aðrar stoðir samfélagsins, skuli staðreyndin vera þessi. Ég tek það jafnframt fram, frú forseti, að við getum ekki gengið lengra. Við getum ekki ætlast til þess að þessir stjórnendur gangi fram fyrir skjöldu og gangi lengra en aðrir ríkisstjórar í þessum efnum.