140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður orðaði þetta afar skemmtilega, hann kallaði forstjórana ríkisstjóra og átti þá væntanlega við ríkisforstjóra. Menn kölluðu alltaf forstöðumann áfengisverslunarinnar heima ríkisstjóra. Það hefur sjálfsagt verið gert víða um land.

Ég vil koma að tvennu. Í fyrsta lagi er til dæmi um heilbrigðisstofnun sem þarf að skera niður en þar á líka að skera niður í samgöngum. Það á að skera niður styrk til innanlandsflugs þar sem flug mun svo leggjast niður á þeim stað. Maður veltir fyrir sér þeim sjúklingum sem þurfa þjónustu, hvort sem það er sérfræðiþjónusta eða endurhæfing eða eitthvað, því að sjálfsögðu minnka og breytast tækifæri þeirra til að sækja sér þá þjónustu lengra í burtu. Auðvitað á fólk víða um land ekki þess kost að fljúga en það er ástæðulaust að mínu viti að auka þann fjölda sem þarf að nota aðrar samgöngur til að sækja sér heilbrigðisþjónustu því að þetta eru ekki stórar upphæðir sem um að ræða.

Hitt er að stofnun sem rekin hefur verið með 40 millj. kr. halla á því ári sem nú er að líða á að skera niður um 17 milljónir á næsta ári. Það gera 57 milljónir. Það má reikna með að það verði viðvarandi hallarekstur áfram á næsta ári, ekki síst þegar bætist við frekari niðurskurður. Þá hljótum við að velta fyrir okkur: Erum við að segja að viðkomandi stofnun verði að treysta á guð og lukkuna og vona að við tökum á fjármálum hennar að ári, næsta haust, eða þarf viðkomandi stofnun að segja upp fólki sem tekur mið af þessum 57 milljónum? Málið er nefnilega mjög flókið og ég hvet fjárlaganefnd til þess að skoða það vandlega milli umræðna.