140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:55]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að taka þessari áskorun og þess vegna áskildi ég mér rétt til þess að skoða þetta betur milli umræðna eins og ég gat um í fyrra andsvari mínu. Ég tel einmitt að heilbrigðismálin verði efst á baugi hjá hv. fjárlaganefnd á milli 2. og 3. umr. Þau eru einfaldlega viðkvæmasti málaflokkurinn.

Þar sem hæstv. velferðarráðherra situr í salnum nú í kvöld vil ég nefna að hann hefur lagt sig í líma við að stýra þessari hagræðingu af eins mikilli mannúð og hugsast getur og farið mildilega um héruð. Ég tel að hv. fjárlaganefnd eigi að koma téðum ráðherra til hjálpar á milli umræðna til að skoða þær aðstæður sem ríkja og eru ólíkar frá einum stað til annars í þessum efnum. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að aðstæður þessara stofnana eru mjög ólíkar innbyrðis af augljósum ástæðum, svo sem vegna vegasamgangna, flugsamgangna og einfaldlega veðurs og eins fjarlægðar frá suðvesturhorninu vegna þess að það gengur illa að manna sumar stöður vegna fjarlægðar frá því svæði sem býður upp á mestu og bestu þjónustuna og þar vilja vitaskuld flestir vera sakir faglegrar endurmenntunar og annars slíks.

Hvað flugið varðar held ég að það sé mikilvægt að skoða það sérstaklega. Á hverju einasta ári eru 430 Íslendingar um borð í sjúkraflugi á Íslandi — 430 á hverju ári, þar af helmingurinn í lífshættu. Á tíu árum fara því tvö þúsund Íslendingar í sjúkraflug (Forseti hringir.) á Íslandi lífshættulega veikir. Það þurfum við að hafa í huga þegar heilbrigðisþjónustan er annars vegar.