140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið. Auðvitað er þetta nákvæmlega rétt sem hv. þingmaður sagði. Til þess að búa til aga þarf að gera menn ábyrga fyrir því sem þeir eru að gera í rekstri stofnana og þá getur afleiðingin bara orðið ein, ekki eins og það sem ég rakti áðan að menn færu að þróa eitthvert tilsjónarmannakerfi. Það kom nú fram á einum fundi hv. fjárlaganefndar að viðkomandi ráðuneyti væri á þeim buxunum að fara að þróa það frekar. Það held ég að sé nú einn af þeim fáu fundum í hv. fjárlaganefnd sem mér var algjörlega nóg boðið og hafði mjög hátt. En hvað um það.

Ég segi fyrir mína parta um það sem snýr að tekjuhlið og gjaldahlið fjárlaganna, það þýðir ekkert fyrir okkur að hafa þetta í lausu lofti, sem það er. Við verðum að taka heiðarlega umræðu um það. Ætlum við að hafa þetta svona? Ég tel það ekki framkvæmanlegt, það getur verið að aðrir telji það framkvæmanlegt, en það er mín skoðun. Við eigum ekki að vera feimin að ræða um það og taka þannig ákvarðanir að við getum rækt okkar hlutverk sem okkur er ætlað að gera í nefndinni. Það er ekki verið að benda á einn eða neinn í því. Þessi þingsköp voru samþykkt og við þurfum ekkert að deila um það hvort á að finna einhvern sökudólg, það þarf bara að laga þetta ef menn eru sammála því, en ekki er víst að allir séu sammála því að gera þurfi þetta með þessu móti.

En aðalatriðið er að ná fram faglegum vinnubrögðum til þess að geta náð tökum á fjármálum ríkisins og ná aga inn í fjárlögin því að um leið og agi kemur þá spörum við mikla peninga. Það er að minnsta kosti skoðun mín að það muni ganga eftir.

Þessar sérstöku vaxtabætur, það er eitt af því sem nefnt er þegar menn eru að setja og tekjufæra inn í fjárlögin. Ég nefndi áðan að það væri það sem ég taldi vantalið á gjaldahliðinni. Þegar menn eru farnir að tekjufæra með þessum hætti álögur á lífeyrissjóðina sem eiga að greiða niður sérstakar vaxtabætur, sem á reyndar eftir að útfæra og ná samkomulagi um, en svo greiðir ríkið sjálfu sér og ætlar síðan að halda því fram að þetta sé tekjuaukning (Forseti hringir.) þegar lengt er í halanum hinum megin. Þetta er náttúrlega (Forseti hringir.) ekki rétt.