140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Tæpur helmingur útgjaldahliðar fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2012 er útgjöld velferðarráðuneytisins, 225 milljarðar af um 540 milljörðum kr. Og nú fjórða árið í röð skal skorið niður í heilbrigðisþjónustu en þó þannig, eins og verið hefur á undanförnum árum, að þjónustu í heilbrigðismálum, þjónustu við börn, aldraða og fatlað fólk, er hlíft og niðurskurðarkrafan á þessum sviðum er helmingi minni en niðurskurðarkrafan er í annarri þjónustu ríkisins, 1,5% fyrir árið 2012 á móti 3%.

Engu að síður er mjög erfitt að bregðast við þessari niðurskurðarkröfu þegar búið er að spara og skera, skera og spara þrjú ár í röð, og það hjá heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum sem voru alls ekki vel sett fyrir hrun. Þvert á móti voru margar þeirra, og allar þær stærstu, reknar með bullandi halla allt góðærið svokallaða, halla sem þær sumar hverjar burðast enn með en hafa þó komið yfir á biðreikninga þar sem reksturinn hefur haldist innan fjárlaga.

Niðurskurðarkrafan á velferðarmálin var 2,3 milljarðar á föstu verðlagi ársins 2011 þótt framlögin hækki í reynd um 7,6%, þ.e. um 16 milljarða, milli ára vegna gengisbreytinga, verðlagsþróunar og kjarasamninga.

Eins og sjá má á áliti meiri hluta velferðarnefndar sem er að finna á bls. 95–102 á þskj. 390, sem er nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012, afgreiddi velferðarnefnd álit sitt á frumvarpinu til fjárlaga talsvert áður en hv. fjárlaganefnd afgreiddi sínar tillögur til breytinga fyrir 2. umr. sem nú stendur yfir í þingsal. Við 2. umr. hefur meiri hluti fjárlaganefndar kynnt tillögur um breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem nema 1,9 milljörðum kr. á útgjaldahlið velferðarmálanna, þ.e. dregið er úr niðurskurðarkröfunni sem því nemur, þar af um 770 millj. kr., sýnist mér, til beinnar heilbrigðisþjónustu.

Ég ætla að víkja fyrst að áliti meiri hluta velferðarnefndar um heilbrigðisþjónustuna. Þar er ítrekuð sú afstaða meiri hluta nefndarinnar að hagræðingarkröfur megi aldrei verða til þess að ýta fólki í dýrari úrræði. Þetta eru eðlileg viðvörunarorð og tímabær því að á sama tíma og útgjöld til opinberrar heilbrigðisþjónustu, bæði á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum, hafa dregist saman um 22% frá árinu 2008, sem sagt frá hruni, hafa útgjöld til að mynda til sérgreinaþjónustu lækna aukist um 7%. Þessar staðreyndir endurspeglast í þeim gögnum sem við þingmenn höfum nú á borðum okkar. Á sama tíma og aðhaldskrafan er, eins og ég sagði áðan, 2,3 milljarðar í velferðarmálum er í þessu sama fjárlagafrumvarpi og lagt var fyrir þingið tillaga um 2,7 milljarða kr. hækkun til útgjalda sjúkratrygginga. Þar af fara 1.160 milljónir í viðbótarframlag til sérgreinalækninga, ekki aðeins til að mæta hækkun á kostnaði við þjónustu þeirra heldur einnig vegna magnaukningar sem margt bendir til að sé komin til vegna þess að framboð á þessu sviði heilbrigðisþjónustu hefur aukist á sama tíma og framboð í almennri heilbrigðisþjónustu hefur minnkað.

Það er því ljóst, frú forseti, að það hefur engan veginn tekist að halda jafnvægi í niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni undanfarin ár. Heilbrigðisþjónustan hefur í reynd lekið út úr almenna kerfinu yfir á einkastofur lækna og einkaskurðstofur lækningafyrirtækja þar sem alls ekki er tryggt að þjónustan sé betri eða öruggari en í almannakerfinu sem er alla jafna mun ódýrara úrræði fyrir ríkissjóð.

Í áliti meiri hluta velferðarnefndar er bent á að þessu þurfi að linna. Meiri hlutinn telur mjög jákvætt að nú liggur fyrir enn ein skýrsla með ábendingum um nauðsyn þjónustustýringar í heilbrigðisþjónustu, m.a. um það sem við höfum hér í þessum sal kallað sveigjanlegt tilvísanakerfi. Þjónustustýringu verður vissulega ekki komið á á einni nóttu, en meiri hluti velferðarnefndar telur hins vegar miður að fjárlagavinnan í heilbrigðisþjónustunni hafi ekki byggt á þessari nýju skýrslu sem rekja má til ráðgjafarfyrirtækisins Boston Consulting Group, sem mér skilst reyndar að sé sænskt en ekki bandarískt. Meiri hlutinn ítrekar að gera verði bragarbót á fyrir fjárlög ársins 2013 og taka tillit til margítrekaðra tillagna um þjónustustýringu.

Í tillögum meiri hlutans sem sjá má í áliti til fjárlaganefndar er sem sagt ítrekað að það þurfi að koma á stýringu á flæði sjúklinga milli heilsugæslu, sjúkrahúsa, bráðaþjónustu og sérfræðinga. Enn fremur að styrkja þurfi heilsugæsluna til að unnt sé að taka upp slíka stýringu. Í þriðja lagi að endurskipuleggja þurfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og að magnaukningu í sérgreinaþjónustu skuli ráðstafa beint til heilbrigðisstofnana sem geti þá keypt þjónustu eftir þörf á hverjum stað. Eins og við vitum er þörfin misjöfn, ekki bara vegna þarfa íbúanna heldur fyrst og fremst vegna þess hvaða sérfræðingum viðkomandi heilbrigðisstofnun hefur á að skipa og hvaða sérfræðinga vantar á svæðið. Enn fremur að koma þurfi upp forvakt við bráðadeildir Landspítala – háskólasjúkrahúss, en bráðaþjónusta er eitt dýrasta úrræðið sem völ er á í heilbrigðisþjónustu og er til mikils að vinna að menn nýti ekki það úrræði að óþörfu eða þeim sé beinlínis ýtt út í það ef annað hagkvæmara og jafngott og -öruggt er í boði. Meiri hluti velferðarnefndar bendir á í þessu sambandi að við undirbúning nýbyggingar Landspítala – háskólasjúkrahúss þurfi að gera ráð fyrir byggingu eða kjarna fyrir slíka þjónustustýringu.

Frú forseti. Heilbrigðisstofnanir aðrar en Landspítali – háskólasjúkrahús höfðu ekki brugðist við kröfum um niðurskurð þegar velferðarnefnd skilaði áliti sínu. Nefndinni var bent á að heilbrigðisstofnanirnar væru sem sagt enn að vinna tillögur sínar og þess vegna fékk nefndin ekki upplýsingar um það við vinnu við álit sitt hvernig brugðist yrði við. Vísa ég til þess sem kalla má nokkra ádrepu þar um á bls. 97, en einnig brýningu. Aðalatriðið sem þarna kemur fram er að nefndin lýsir áhyggjum sínum yfir því að ekki verði lengra gengið í niðurskurði án þess að skerða þjónustu og fækka störfum og að fyrir þurfi að liggja stefna og áætlun til langs tíma um skipulag og fjárhagsramma heilbrigðisþjónustunnar.

Þetta var staðan þegar hv. velferðarnefnd var að ljúka við og skila áliti sínu. Nú hins vegar, og fyrir lokaafgreiðslu fjárlaganefndar, liggur fyrir stórgóð greinargerð upp á tæpar 60 blaðsíður til velferðarráðherra um heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús vegna fjárlaga ársins 2012. Þetta er samantekt niðurstaðna af fundaröð ráðherra og ráðuneytis með stjórnendum heilbrigðisstofnana, útgefin núna í nóvember, í þessum mánuði, og hefur verið mjög vel að verki staðið. Ég vil hrósa ráðuneytinu og hæstv. velferðarráðherra sérstaklega fyrir þetta verk og ítreka vegna ummæla sem hér féllu í dag af sama tilefni að ég sé alls ekkert óeðlilegt við það að gerðar séu breytingar á fjárlagafrumvarpi fyrir 2. umr. eins og hér er verið að gera, ég tala nú ekki um þegar vel er gert og þegar í er bætt. Það hefur hv. fjárlaganefnd einmitt gert. Hún hefur, það sem ég vil kalla, slökkt á rauðu ljósunum sem er hægt að sjá í þessari greinargerð og bætt við einum 1.900 millj. kr. í velferðarmálin, dregið verulega úr niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni beint um einar 770 millj. kr. Þegar ég segi að slökkt hafi verið á rauðu ljósunum vil ég sýna hv. þingmönnum sem hér eru í salnum hvernig þetta verk hefur verið unnið. Í greinargerðinni hefur verkefnum viðkomandi heilbrigðisstofnunar verið skipt upp í þrennt. Á rauðu ljósi er ákveðin þjónusta sem í tiltekinni heilbrigðisstofnun á bls. 24 er talin kosta 17,1 millj. kr. Í afgreiðslu meiri hluta fjárlaganefndar á niðurskurðartillögum til sömu stofnunar er bætt í 23,6 millj. kr. og því segi ég í þessu tilfelli að slökkt hafi verið á rauðu ljósunum. Og það er vel, til þess tökum við þessi mál í gegnum fleiri en eina umræðu.

Frú forseti. Velferðarnefnd ræddi sérstaklega málefni Landspítalans, tannlækningar, sjúkraþjálfun og þjónustusamninga, einkum og sér í lagi við Reykjalund og Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann sem við heimsóttum. Einnig var fjallað um Fæðingarorlofssjóð, um þjónustusamninga og Íbúðalánasjóð. Um það má lesa í áliti hv. nefndar.

Við fjölluðum einnig um bótaflokka sem gerð var tillaga um að fengju ekki 3,5% hækkun á næsta ári og bentum á, samanber bls. 99 í nefndaráliti, í fylgiskjali með áliti meiri hluta velferðarnefndar, að margir þessara bótaflokka tengjast sérstaklega málefnum barna. Af því tilefni segir í áliti meiri hluta velferðarnefndar, með leyfi forseta:

„Telur meiri hlutinn mikilvægt að staða barna og barnafjölskyldna sé skoðuð sérstaklega í fjárlagagerðinni, og tryggt að áhersla stjórnvalda um að standa vörð um hag barna sé höfð að leiðarljósi í hagræðingaraðgerðum.

Þá telur meiri hlutinn jafnframt vert af þessu tilefni að benda á misræmi sem gætir í bótakerfi ríkisins í bótum, lífeyri og uppbótum til barnafólks. Til að mynda er barnalífeyrir skattfrjáls en uppbót á atvinnuleysisbætur vegna barna á framfæri hins atvinnulausa teljast til tekna og skattlagðar sem slíkar. Telur meiri hlutinn mikilvægt að réttlæti og jafnræði sé tryggt í bótakerfum ríkisins og leggur áherslu á að heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins sem nú er unnið að verði flýtt. Slík vinna ætti að stuðla að réttlátri skiptingu almannafjár.“

Hér var um að ræða, frú forseti, niðurskurð upp á 220 millj. kr. sem hv. fjárlaganefnd hefur nú dregið til baka og bætt í þannig að þeir bótaflokkar sem um ræðir og snúa, eins og ég nefndi áðan, flestir að málefnum barna munu fá 3,5% hækkun á næsta ári eins og aðrir bótaflokkar.

Það er ánægjulegt að sjá tillögur hv. fjárlaganefndar. Það er því freistandi að rekja þær og ég ætla að leyfa mér þann munað, frú forseti, að benda á að dregið er úr aðhaldskröfu um 120 millj. kr. til að milda áhrif hagræðingaraðgerða á sjúkraþjálfun og tæknifrjóvgun. Bætt er í 140 millj. kr. til að efla tannheilsu og tannvernd barna til að fylgja eftir markmiðum heilbrigðisáætlunar og aðgerðaáætlun um að styrkja stöðu barna og ungmenna þar sem kveðið er á um að tannvernd barna verði bætt með forvarnaaðgerðum og niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna sem nemi allt að 75% af kostnaði. Til Sjúkrahússins á Akureyri eru lagðar til 37 millj. kr., annars vegar til að draga úr aðhaldskröfu og hins vegar til að tryggja læknanemastöður við sjúkrahúsið. Þá vek ég athygli hv. þingmanna á tæplega 140 millj. kr. fjárframlagi til Landspítala til að draga úr aðhaldskröfu sem var 630 millj. kr. og fer hún því niður fyrir 500 milljónir með þessari tillögu verði hún samþykkt.

Í útvarpsfréttum í dag lýsti forstjóri Landspítalans, Björn Zoëga, því yfir að þetta breytti miklu fyrir spítalann því að nú yrði opnuð öldrunardeild í Landakoti sem hefur verið lokuð en staðið uppbúin um nokkra hríð. Það er ástæða til að fagna því og það veit ég að ráðgjafarnefnd Landspítala – háskólasjúkrahúss mun gera en nefndin kom fyrir velferðarnefnd og benti á hversu miklu ódýrara það er fyrir spítalann að reka þessa öldrunardeild í Landakoti en í Fossvogi og við Hringbraut þar sem eru sérhæfðari rúm, auk þess sem aldraðir sjúklingar sem þar fá inni fá þá sérhæfða þjónustu við sitt hæfi sem erfitt og útilokað er að veita á göngum Landspítalans.

Þá vil ég vekja athygli hv. þingmanna á 15 millj. kr. framlagi til Reykjalundar vegna viðbótarkostnaðar. Að baki þessari tölu er nokkuð ótrúleg saga sem freistandi væri að rekja en tímans vegna ætla ég að láta það vera.

Síðan er viðbótarframlag til heilbrigðisstofnana hringinn í kringum landið sem er í samræmi við þau rauðu ljós sem bent var á í yfirferð velferðarráðuneytisins um landið, í fundaröð ráðherra og ráðuneytis með stjórnendum heilbrigðisstofnana, og er nú verið að slökkva. Ég get ekki annað en fagnað því að með þessu móti sé dregið úr aðhaldskröfunni.

Frú forseti. Hv. velferðarnefnd ræddi einnig tekjuhlið fjárlaganna og þá einkum og sér í lagi mál sem lúta að álögum á tóbak vegna þess að þar er um lýðheilsumál að ræða. Í áliti sem meiri hluti nefndarinnar skilaði til hv. efnahags- og viðskiptanefndar er tekið eindregið undir tillögur sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur unnið og kynnti fyrir nefndinni. Við leggjum í áliti okkar mikla áherslu á að þessar tillögur verði að veruleika núna við afgreiðslu fjárlaga. Þær skila ekki aðeins 350–360 millj. kr. aukalega í ríkissjóð, sem hlýtur að teljast allnokkuð, heldur geta þær breytt miklu í notkun tóbaks. Það kann að snerta einhverja hv. alþingismenn því að þar er meðal annars um að ræða margumrætt neftóbak, og lyftast nú dósir hér víða í salnum.

Meiri hluti velferðarnefndar tekur semsé undir það að sama gjald verði lagt á neftóbak og annað tóbak sem ber tóbaksgjald eftir vigt, þ.e. allt tóbak annað en sígarettur sem lagt er á eftir pakkningum. Við leggjum áherslu á að það eigi að minnsta kosti að færa þetta gjald nær. Við skulum ekki gleyma því að þegar neftóbaki var hlíft við þessum álögum á sínum tíma var það með þeim rökum að það væri eitthvað sem gamlir karlar í sveitum notuðu mikið og neftóbak væri á útleið og mundi hverfa. Það væri því ástæðulaust að leggja mikið á blessaða gömlu karlana. Ekki hefur þetta nú reynst rétt, þvert á móti hefur neysla á neftóbaki margfaldast undanfarin ár. Það eru ekki einhverjir gamlir karlar til sveita og ekki aðeins karlmenn hér í sölum Alþingis sem nota neftóbak heldur nota ungir drengir það sérstaklega sem munntóbak og við því þarf að sporna. Það er algerlega ástæðulaust að tóbakseiningin í neftóbaki sé fimm sinnum ódýrari en annað tóbak. Við vitum líka að verðið er það sem stýrir neyslunni á unga aldri.

Frú forseti. Auk þess tekur meiri hluta nefndarinnar undir tillögu um að breyta álagningu á tóbaksgjald þannig að sett verði fast verð á tóbak og sama verð um allt land og um leið verði álagning smásala á tóbak lækkuð niður í 20% af söluverði Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Hvað þýðir þetta? Það þýðir að án þess að breyta verði sígarettupakkans er unnt að hækka tóbaksgjaldið í 7,5% í stað 5,1% sem gerð er tillaga um í frumvarpinu.

Álagning smásala á tóbakssölu á Íslandi er nú um 30% og hefur hækkað úr 16% frá því að fast verð var tekið af tóbakinu. 30% álagning þýðir að verulegur hvati er til að selja sem mest af tóbaki og það sýnir sig auðvitað í sölumynstrinu. Nú er komin verðsamkeppni í sölu tóbaks og hægt að kaupa það ódýrara á einum stað en öðrum og þar selst því meira af því. Tillagan gengur sem sagt út á að sett verði fast verð og sama verð á tóbaki um allt land til að koma í veg fyrir að það sé boðið til sölu á niðurgreiddu verði í skjóli þess að álagningin er svo há.

Frú forseti. Það væri freistandi að fjalla meira um þetta stórgóða fjárlagafrumvarp sem við höfum hér fyrir framan okkur. Ég hefði gaman af því að fara ítarlega yfir fleiri breytingartillögur í fleiri ráðuneytum sem hv. fjárlaganefnd hefur gert en tímans vegna og lengdar mælendaskrár ætla ég að láta hér við sitja og hvet þingmenn til að kvarta ekki undan því sem vel er gert, hvorki í fjárlaganefnd né fjármálaráðuneyti.