140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:17]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hérna um fjárlagafrumvarpið 2012. Það skjal er mikil lesning eins og ávallt. Það eru deildar meiningar meðal þingmanna um það hversu mikið vit er í þessu öllu saman. Það sem mig langar til að fara yfir er tekjuhliðin, sérstaklega ætla ég að byrja á að tala um forsendur fjárlaganna og rekja hvort þær muni standast.

Forsendur fjárlaganna hafa breyst þó nokkuð frá því að þjóðhagsspá Hagstofunnar sem frumvarpið byggir á var birt 8. júlí sl. Þannig hefur hagvöxtur verið stilltur niður á við um 0,7% og ýmsir liðir innan landsframleiðslunnar hafa tekið þó nokkrum breytingum. Við skoðun á þessu öllu saman kemur í ljós að hagvöxturinn verður meira og minna drifinn af einkaneyslu og ég mun fara yfir það betur á eftir.

Mér er nokkur vandi á höndum við að fjalla um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins vegna þess að endurmat á forsendum þess verður ekki kynnt í efnahags- og skattanefnd fyrr en í fyrramálið. Í umræðum um það gefst enginn tími til að fjalla um forsendurnar vegna þess að miðað við dagskrá er gert ráð fyrir atkvæðagreiðslu upp úr hádegi á morgun. Það á ekki að fjalla neitt um breytingar á forsendum fjárlaga. Þá er kannski ágætt að ég reyni að gera það af því viti sem ég hef, sem er kannski ekki mjög mikið, og út frá þeim útreikningum sem ég hef gert sjálfur.

Í spánni í júlí var gert ráð fyrir því að einkaneysla drægist saman um 3%. Einkaneysla á þessu ári hefur haldið mjög uppi hagvexti og hún hefur verið drifin af metúttektum á lífeyrissparnaði. Í kringum 25 milljarðar fóru til heimilanna í auknar ráðstöfunartekjur í gegnum viðbótarlífeyrissparnað. Sérstök vaxtaniðurgreiðsla sem var ákveðin hér á síðasta ári er í kringum 6 milljarðar. Þá erum við komin í 31 milljarð. Síðan er einn þáttur sem hafði þó nokkur áhrif, sá að Landsbankinn borgaði út 4,4 milljarða á þessu ári vegna 20% vaxtaafsláttar.

Ef við lítum síðan á hvernig þetta muni líta út á næsta ári er talið að launahækkanir verði svipaðar og á þessu ári en að úttekt á lífeyrissparnaði verði 12–13 milljarðar, þ.e. um helmingi lægri en var á þessu ári. Sérstaka vaxtaniðurgreiðslan verður sú sama, í kringum 6 milljarðar, en ekki er gert ráð fyrir því að Landsbankinn borgi út meira af vaxtaafslættinum. Hagvöxturinn var meira og minna drifinn af óefnislegum þáttum á þessu ári og gert er ráð fyrir að hann verði áfram á næsta ári en ég tel það ekki líklegt. Ég tel um ofmat á einkaneyslunni að ræða.

Þá vekja athygli vísbendingar um að afborganir af lánum heimilanna verði annað árið í röð umtalsvert minni en þær voru 2009. Það getur líka skýrt einhvern hluta aukinnar einkaneyslu þannig að allt leggst þetta í þá átt að hugsanlega sé ofmetið hjá Hagstofunni hve mjög einkaneyslan muni vaxa og þar af leiðandi verði hagvöxtur ekki jafnmikill og spáð er.

Miðað við fjárlagafrumvarpið mun samneyslan dragast saman um 0,1%. Fjárfesting er talin aukast um 1,8%. Þá er gert ráð fyrir kísilveri í Helguvík sem er fjárfesting upp á 17–18 milljarða sem dreifist á tvö ár. Þegar þetta fjárlagafrumvarp kom inn í þingið stóð til að taka upp svokallaðan kolefnisskatt, þ.e. skatt á kol og koks sem eru notuð í kísilverum. Ef sú hefði orðið raunin er ljóst að ekki hefði orðið af fjárfestingunni. En eins og við munum sem vorum í þessum sal í gær lýsti fjármálaráðherra því yfir að hætt hefði verið við að fara út í þá skattahækkun og tel ég að það sé einna helst vegna þess að stjórnarandstæðingar og forsvarsmenn fyrirtækja, bæði Elkem uppi á Grundartanga og forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hyggjast reisa kísilver í Helguvík og jafnvel á Húsavík, bentu á að starfsemin legðist ella af uppi á Grundartanga og að hvorki yrði farið út í fjárfestinguna í Helguvík né fyrir norðan. Ekki var mikil hugsun í því hjá fjármálaráðherra en það er gott að hann hefur séð að sér og að hætt hefur verið við þessa skattlagningu.

Það bólar ekki mikið á annarri fjárfestingu, a.m.k. ekki stórfjárfestingu, þótt svo virðist sem atvinnuvegafjárfestingin sé eitthvað að taka við sér.

Það er gert ráð fyrir því að útflutningur á vöru og þjónustu muni dragast saman. Hann mun dragast saman meira en innflutningur á vöru og þjónustu þannig að vöruskiptajöfnuðurinn verður ekki jafnmikill og ella.

Samantekið verður verg landsframleiðsla 0,7% lægri en spáð var í júlí. Eins og ég hef rakið finnst mér þessi spá brothætt, sérstaklega í sambandi við einkaneysluna og fjármunamyndunina. Ef við reynum að leiða þetta inn í fjárlögin, af því að við erum að tala hér um tekjuhliðina á fjárlögum, getum við notað þá þumalputtareglu að 28% af hagvextinum falli í hlut ríkisins og þá má gera ráð fyrir í kringum 3,1 milljarðs minni tekjum vegna þessa minni hagvaxtar en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Það eykur á þennan 18 milljarða viðbótarhalla sem varð milli 1. og 2. umr. og þá erum við komin upp í 21–22 milljarða.

Forsendur fjárlaganna eru ekki beysnar. Þess vegna vekur afar mikla athygli að ekki verði farið yfir breyttar forsendur fjárlaga fyrr en í fyrramálið, þ.e. eftir að þessari umræðu lýkur, rétt á undan atkvæðagreiðslu. Það verða gríðarlega miklar breytingar á milli 2. og 3. umr. sem hefði verið hægt að sjá fyrir ef við hefðum gefið okkur það að efnahags- og viðskiptanefnd hefðu verið kynntar þessar breyttu forsendur, t.d. bara í dag. Það er nú það.

Við sjálfstæðismenn fjöllum ítarlega um tekjur hins opinbera í tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Þar segir, með leyfi forseta:

„Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við efnahagsvandanum hafa hingað til verið mjög máttvana. Einna alvarlegustu mistökin voru þau að bregðast við vanda ríkissjóðs með því að hækka skatta á launafólk og fyrirtæki. Þar með var dreginn kraftur úr atvinnulífinu og tafið fyrir því að atvinnulífið kæmist aftur á réttan kjöl. Aukið atvinnuleysi, minni kaupmáttur og verri staða ríkissjóðs en ella hefði orðið er afleiðingin.“

Svo mörg voru þau orð.

Þessar staðhæfingar eru ansi vel studdar rannsóknum sem talað er um í þessari þingsályktunartillögu. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Árið 2009 var birt viðamikil rannsókn sem unnin var af hagfræðingum við Harvard-háskóla. Þar voru viðbrögð 21 ríkis innan OECD við efnahagskreppu metin og náði rannsóknin aftur til ársins 1971. Borinn var saman árangurinn af því að annars vegar auka ríkisútgjöld til að örva hagkerfið og hins vegar árangurinn af því að lækka skatta. Niðurstaða þessarar rannsóknar var eindregið sú að þau ríki sem höfðu farið þá leið að lækka skatta náðu árangri fyrr og það sem meira var, árangur þeirra var viðvarandi.“

Svo mörg voru þau orð.

Með því að lækka skatta og einfalda skattkerfið munu aukast til muna líkurnar á því að þjóðin vinni sig út úr efnahagsvandanum. Jafnframt er líklegt að ábatinn verði varanlegri og leiði til þess að lífskjörin verði til jafns og best gerist annars staðar. Það sýna þær hagfræðirannsóknir sem ég talaði um áðan.

Í annarri rannsókn sem er fjallað um í efnahagstillögum Sjálfstæðisflokksins, rannsókn sem framkvæmd var af Efnahags- og framfarastofnuninni OECD á ríkisfjármálum aðildarríkja stofnunarinnar, kemur í ljós að skattbyrði er mest á Íslandi þegar tillit hefur verið tekið til fyrirkomulags lífeyrismála. Lífeyrissjóðir eru eins og við vitum fjármagnaðir á Íslandi af launagreiðslum launþega, en í flestum öðrum ríkjum er um gegnumstreymisfyrirkomulag að ræða. Þessi munur leiðir til þess að ríkisútgjöld virðast minni á Íslandi sem nemur framlagi í lífeyrissjóði. Sanngjarnt og rétt er að taka tillit til þess þegar skattheimta milli landa er borin saman, alveg eins og OECD hefur gert, og þá fáum við þá niðurstöðu sem ég hef hér rakið, að skattbyrði á Íslandi er ein sú hæsta innan OECD.

Hið opinbera er orðið allt of umsvifamikið. Á síðasta ári báru 125 þús. starfsmenn í einkageiranum uppi um 42 þús. opinbera starfsmenn, um 14 þús. atvinnulausa og 137 þús. aðra einstaklinga sem voru utan vinnumarkaðar, oftast sökum aldurs. Sú þróun sem orðið hefur undanfarna áratugi er ekki sjálfbær eins og sést á fjármálum hins opinbera. Aldrei hafa færri starfsmenn í einkageiranum staðið undir jafnmörgum. Ríkið má ekki verða upphaf og endir alls í lífi okkar. Það gefur stjórnmála- og embættismönnum allt of mikil völd og líkur aukast á því að skattfé sé ráðstafað með óhagkvæmum hætti eða í óþarfa.

Það er brýnt að tekist verði af einhverri alvöru á við það verkefni að endurskilgreina þjónustuframboð ríkisins með það að meginmarkmiði að fá meira fyrir minna. Byggja þarf upp hvata í ríkisrekstri til að ná fram hagræðingu, auka samkeppni, setja raunhæf markmið um þjónustu, gæði og magn og mæla árangur í rekstri. Æskilegt er að skilið sé á milli kaupa og sölu á þjónustu, að sjálfstæði stofnana sé aukið og að þær bjóði í verkefni á vegum ríkisins. Áríðandi er að á þessum grunni verði unnin áætlun til lengri tíma um þjónustu ríkisins við skattgreiðendur. Að öðrum kosti verður svokallaður niðurskurður í ríkisrekstri hvorki markviss né til gagns, eins og við sjáum berlega í dag. Grundvallaratriði er að koma böndum á hallarekstur ríkissjóðs með þeim hætti að stilla rekstrarkostnað af með tilliti til þeirra tekna sem úr er að spila hverju sinni.

Í þessum efnahagstillögum leggjum við til í beinu samhengi við fjárlögin að við náum tökum á ríkisútgjöldum og að þau verði dregin saman um 17,6 milljarða milli áranna 2011 og 2012 frá því sem er í fjárlagafrumvarpinu. Megnið af þessum sparnaði má rekja til sparnaðar í atvinnuleysisbótum sem sparast vegna annarra aðgerða sem við boðum í frumvarpinu.

Við leggjum einnig til sparnað við æðstu stjórn ríkisins og ráðuneytin en við leggjum til að dreginn verði til baka sparnaður sem var áætlaður í velferðarráðuneytinu vegna heilbrigðismála. Jafnframt leggjum við til að útgjöld til löggæslumála verði aukin.

Við leggjum ekki til að fjárveitingar til mennta- og menningarmála, félagsmála og heilbrigðismála verði skornar niður næstu tvö árin, heldur verði þessi tími notaður til að leita hagræðingarmöguleika í samvinnu við starfsmenn og notendur þjónustunnar. Það er mjög brýnt að ítreka það.

Við höfum séð hvað þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin viðhefur hafa í för með sér. Það er algjörlega augljóst að sú leið virkar ekki.

Hér eru ýmsar hugmyndir ræddar sem vert er að benda ríkisstjórninni á að skoða ítarlega vegna þess að það virðist vanta allverulega upp á hugmyndirnar.

Ef við förum aðeins yfir breytingartillögurnar við tekjuhliðina sjáum við ýmsa merkilega hluti. Þess ber fyrst að geta að stjórnarþingmenn hafa státað sig af því að velferðarútgjöld hafi verið aukin gríðarlega og að aldrei hafi þau verið meiri en akkúrat núna. Þetta er alveg hárrétt. En er það mælikvarði á árangur?

Ef við skoðum atvinnutryggingagjaldið sjáum við að það er næstum því 22 milljarðar. Atvinnutryggingagjaldið telst til velferðar- og félagsmála. Aukin velferðarútgjöld hafa fyrst og fremst orðið vegna aukins atvinnuleysis. Það er það sem ríkisstjórnin og stjórnarliðar státa sig af þegar þau tala um að velferðarútgjöld hafi aukist. Þau státa sig af því að atvinnuleysi hafi aukist gríðarlega og að útgjöld til atvinnuleysismála hafi aukist. Það er með stolti sem ríkisstjórnin tilkynnir um þessa hluti.

Jafnframt er rétt að benda á að þetta atvinnutryggingagjald, sem er tæpir 22 milljarðar, er borgað beint af atvinnulífinu og er fall af því hversu margir eru atvinnulausir. Þegar atvinnuleysi dregst saman eiga þessi útgjöld að dragast saman og tekjurnar líka vegna þess að þetta á að vera í beinu samræmi við atvinnuleysi eins og ég sagði áðan. Þessi ríkisstjórn hefur raunverulega ekki staðið við að láta innheimtuna standast á við sveiflur í atvinnuleysinu. Avinnutryggingagjaldið ætti að vera orðið mun lægra en það er í þessu fjárlagafrumvarpi og munurinn á því sem það ætti að vera og þessum tæpu 22 milljörðum ætti að vera notaður í aðra hluti sem þetta var alls ekki ætlað í.

Næst á tekjuhliðinni eru tæpir 5 milljarðar vegna launaskatta á fjármálafyrirtæki sem lýsir miklu ímyndunarafli hjá ríkisstjórninni. Fjármálaráðherra hefur haldið því fram að þetta sé að danskri fyrirmynd, að leitað hafi verið í smiðju Dana eftir þessum skatti og að þetta sé orðið sambærilegt og í Danmörku. Jafnvel er Frakkland nefnt í leiðinni. Þetta er ekki alls kostar rétt, þegar þessi skattur var lagður á í Danmörku voru um leið aðrir launaskattar teknir af dönskum fyrirtækjum. Hann var lagður á öll fyrirtæki sem ekki voru í virðisaukaskattskerfinu. Þessi skattur skilst mér að sé í kringum 9% í Danmörku núna, en á að verða 10,5% hérna. Við getum bætt launasköttunum, sem ekki á að létta af hérna, við þá prósentu þannig að í raun er hér kominn skattur á laun sem nemur rúmum 19% á móti 9% í Danmörku ef menn vilja bera sig saman við það land. Jafnframt eru reglur um hvernig skatturinn er lagður á í Danmörku mjög ólíkar þeim sem eru hér á landi. Það að segja þennan skatt lagðan á að danskri fyrirmynd er af og frá og sá rökstuðningur gengur engan veginn upp.

Þá er blessaður auðlegðarskatturinn sem menn eru hættir að kalla auðlegðarskatt og farnir að kalla sínu rétta nafni í breytingartillögunum, þ.e. eignarskatt á einstaklinga. Hann er rúmir 7 milljarðar, er orðinn stigskiptur og hefur verið hækkaður þannig. Þetta er merkilegur skattur og var innleiddur fyrir tveimur árum. Hann leggst ekki á tekjur einstaklinga, heldur eignir. Það er merkilegt að velta fyrir sér dómi sem gekk í Þýskalandi fyrir þrem, fjórum árum þar sem einstaklingur sem þurfti að bera eignarskatt fór í mál við þýska ríkið og hélt því fram að eignarskattur jafngilti eignaupptöku og því væri verið að skerða eignarrétt hans. Þýskir dómstólar féllust á þetta og í kjölfarið voru eignarskattar afnumdir í Þýskalandi.

Eignarskattar finnast í einhverjum löndum enn þá, einu eða tveimur, en að eitthvert land innleiði slíka skatta er af og frá. Eignarskatturinn gerir meira en að taka upp eignir. Hann fælir einstaklinga sem eiga miklar eignir frá búsetu á Íslandi. Á nefndarfundum efnahags- og viðskiptanefndar sögðu endurskoðunarskrifstofur að þó nokkuð margir tugir, ef ekki hundruð, íslenskra efnaðra einstaklinga hefðu flutt lögheimili sitt til útlanda til að sleppa undan þessum skatti og að gríðarlega mikið væri spurt um það núna hvernig ætti að flytja lögheimili sitt og hvernig ætti að haga því beint í tengslum við þennan skatt. Þessi skattur skerðir að mínu áliti eignarrétt einstaklinga sem er bundinn í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hann fælir efnaða einstaklinga frá Íslandi og minnkar um leið skattgrunna hins opinbera sem og þau fjárhagslegu umsvif sem þessir einstaklingar hafa á Íslandi. Þetta er gríðarlega vondur skattur og það að hækka hann, breyta honum eða framlengja tel ég algjört glapræði.

Þá er komið að gjaldi sem er kallað stimpilgjöld og ég tel afar óheppilegan skatt.

Í efnahagstillögum okkar sjálfstæðismanna segir þetta:

„Stimpilgjöld verði afnumin í þeim tilgangi að auka samkeppni fjármálastofnana og auðvelda einstaklingum að njóta bestu kjara við endurfjármögnun skulda.“

Svo mörg voru þau orð.

Þetta tel ég mikið réttlætismál. Hér er gert ráð fyrir því að teknir verði 3,2 milljarðar af einstaklingum og heimilum í stimpilgjöld á næsta ári sem skekkir mjög stöðu þeirra til að geta leitað sér bestu fjármögnunar. Þetta er óréttlátur skattur og hann festir einstaklingana á klafa einstakra fjármálafyrirtækja og minnkar þannig samkeppni.

Síðan eru hér aðrir afar óheppilegir skattar, gjald á ávöxtun lífeyrissjóða til að standa undir vaxtaniðurgreiðslum til heimilanna sem mun koma fram í skerðingu réttinda í framtíðinni.

Síðan er veiðigjald fyrir veiðiheimildir hækkað gríðarlega, upp í tæpa 8 milljarða, sem ég tel algjört glapræði. Við vitum að fiskveiðistjórnarkerfið er í algjöru uppnámi. Ríkisstjórnin er við það að springa út af því. Ég tel sanngjarnt að það sé greitt fyrir afnotarétt af auðlindinni en um leið og greitt er fyrir afnotin verður að vera fyrir hendi einhvers konar nýtingarsamningur eins og við sjálfstæðismenn erum mjög meðfylgjandi. Meðal annars náðum við samkomulagi um það í sáttanefndinni svokölluðu fyrir ári. Það er eins með það og annað, ríkisstjórnin virðist ekki hafa neinn áhuga á að koma á friði um þessa grein heldur skattleggur hana. Hér ætlar hún að blóðskattleggja hana án þess að nokkur trygging sé fyrir því að fyrirtækin geti haldið áfram rekstri.

Það væri hægt að taka af mörgu öðru, en ég hef rakið hérna helstu nýbreytnina í skattlagningu. Ég er búinn að tala um að taka til baka niðurskurð sem er lagður til í fjárlagafrumvarpinu, ég er búinn að tala um að lækka skatta og það væri óábyrgur stjórnmálamaður sem legði til bæði að tekjur minnkuðu og útgjöld yrðu aukin án þess að benda á hvaða leið ætti að fara í því.

Í þeim efnahagstillögum sem mér hefur orðið tíðrætt um leggjum við sjálfstæðismenn fram plan sem byggir á því að auka mjög fjárfestingu á Íslandi, að hún verði aukin upp fyrir 20% á næsta ári eftir fjórum leiðum: að auka ríkisútgjöld til fjárfestinga í innviðum, að ná friði um fiskveiðistjórnarkerfið og ná þannig fram aukinni fjárfestingu þar, fjárfestingu sem er núna í algjöru sögulegu lágmarki, að skapa það umhverfi að hægt sé að auka fjárfestingu í orkuöflun og stóriðju og að hvetja áfram til fjárfestingar í litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem er það langmikilvægasta vegna þess að þar vinna flestir Íslendingar.

Í þessum efnahagstillögum setjum við fram útreikninga úr þjóðhagslíkani sem sýnir að ef þetta heppnast mun fjárfesting skjótast upp fyrir 20% á næsta ári sem þýðir að atvinnustigið mun rísa mjög hratt. Þá verða til í kringum 9 þús. ný störf á næsta ári og 5 þús. á því þarnæsta.

Þeir sem vita hvernig hagvöxtur er drifinn vita að það er gert með fjármagni, framleiðslugetunni og atvinnu. Það leiðir til hagvaxtar þannig að áætlað er að hagvöxtur skjótist á næsta ári upp í næstum því 5% í staðinn fyrir 2,4% og dragi svo úr honum árin þar á eftir þangað til afkastagetan í hagkerfinu verður fullnýtt. Þá er áætlað að hagvöxturinn verði í kringum 2,5% á ári út spátímabilið sem er til 2020.

Við vitum að hagvöxtur er bara mælikvarði á vöxt landsframleiðslunnar. Hún eykst sem þýðir að skattgrunnarnir styrkjast sem leiðir til þess að miðað við það plan sem ríkisstjórnin er með mun ríkissjóður fara mun fyrr í plús. Árið 2014 er áætlað að afgangur á ríkissjóði verði í kringum 1,5–2% og helst það út spátímabilið. Í staðinn fyrir að skuldir standi í stað og hækki örlítið, úr rúmum 80%, er við þetta gert ráð fyrir að fram til ársins 2020 fari skuldir ríkissjóðs niður í kringum 55%.

Menn geta haft skoðanir á því hvort þetta rætist allt saman. Margir hlutir þurfa að ganga upp til að svo verði, en til að vera með allan vara á okkur gerum við ráð fyrir því að hafin verði skattlagning séreignarlífeyrissparnaðar og að hann verði notaður sem varasjóður fyrir þetta plan okkar vegna þess að í því eru gríðarlegar skattalækkanir og líka einhver útgjaldaaukning til að byrja með. Fyrst og fremst hugsum við þá skattlagningu eins og ég segi sem varasjóð og svo að tekjurnar verði notaðar til að greiða niður skuldir, til þess að vaxtakostnaður lækki vegna þess að vaxtakostnaður er gríðarlega stór útgjaldaliður í dag.

Í frumvarpinu er áætlað að vaxtagjöldin séu 78 milljarðar, nettó í kringum 57 milljarðar, og það er ljóst að þá 57 milljarða væri gott að nota í margt annað en vexti.

Í tengslum við þetta fjárlagafrumvarp setjum við fram margvíslegar breytingartillögur til að reyna að ná fram markmiðunum í þingsályktunartillögu okkar um aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Þetta gerum við til þess einfaldlega að svara þeirri niðurrifsstefnu sem hér er kynnt sem felur í sér skattahækkanir og óvarlegan og vanhugsaðan niðurskurð á viðkvæmum stöðum í ríkiskerfinu. Um leið tölum við ítarlega um það í þingsályktunartillögu okkar að við þurfum að ná betri tökum á ríkisfjármálunum með því að ná fram sparnaði en það verður að gera í samráði við starfsmenn og notendur þeirrar þjónustu sem ríkið útvegar.