140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:00]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, það er ekki nokkur hemja hvernig þetta er allt saman.

Aftur á móti (Gripið fram í: Ég verð að …) segja ráðherrar ríkisstjórnarinnar og þingmenn með stolti: Við höfum komið á jöfnuði, við höfum hækkað velferðarútgjöld, velferðarútgjöld hafa aldrei verið jafnhá og þau eru í dag.

Þetta er hárrétt, en það gleymist í þeirri sögu að 22 milljarðar af þeim velferðarútgjöldum eru atvinnuleysisbætur, (Gripið fram í: Nákvæmlega.) með öðrum orðum berja ráðherrar og aðrir stjórnarliðar sér á brjóst með stolti og segja: Við getum borgað atvinnuleysisbætur.

En þeir hugsa ekki um að minnka atvinnuleysið.

Ég mundi tala með stolti ef það væri hægt að draga úr þessu og taka í burtu þessa 22 milljarða af atvinnuleysisbótum. (Gripið fram í: Rétt, rétt.) (Gripið fram í: Það er hárrétt.) (Gripið fram í: Það viljum við öll.)

Virðulegi forseti. Það ættu þingmennirnir og ráðherrarnir að reyna að gera frekar en að rembast hérna eins og rjúpan við staurinn (Gripið fram í: Hvergi …) af stolti yfir því að velferðarútgjöld hafi aldrei verið jafnhá og núna, (Gripið fram í: Það hefur svo lítið …) að jöfnuður sé aldrei jafnmikill og núna. Jafnvel eru ekki nema sex rjúpur á mann orðið. [Hlátur í þingsal.]