140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:02]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarpið. Ég get ekki annað sagt í framhjáhlaupi en að ég er svo heppin að eiga sjö rjúpur þannig að ég er sem sagt yfir meðaltali.

Ég stend hér sem sagt í þriðja sinn sem tiltölulega nýr þingmaður og tek þátt í umræðu um fjárlagafrumvarp. Það að koma á þing eftir það hrun sem varð hér í efnahagslífinu verður náttúrlega til þess að umræðan um fjárlagafrumvarpið er á dálítið öðrum nótum en maður hefði kannski óskað sér. Ég hef verið frekar gagnrýnin á vinnulagið við fjárlagagerðina. Ég hefði gjarnan viljað sjá að almennt ynnum við áætlanagerð til lengri tíma sem væri byggð á markvissri stefnumótun sem þingmenn á breiðum grunni tækju þátt í og á hennar grunni forgangsröðuðum við síðan og veldum þau verkefni sem við vildum að væru efst á baugi í stórum dráttum en ekki óbreyttir rammar ráðuneytanna að mestu leyti frá ári til árs sem eru uppfærðir samkvæmt verðlagshækkunum og öðru slíku. Að vísu hefur unnist áfangasigur undir forustu formanns þingflokks Samfylkingarinnar, Oddnýjar G. Harðardóttur. Við höfum breytt vinnulaginu verulega hvað varðar safnliði. Við höfum sett þá vinnu í faglegan farveg og sett inn endurskoðunarákvæði þannig að við getum skoðað hvernig best er að vinna það mál.

Við tölum stundum um þjóðarskútuna og þjóðarskútan okkar er talsvert þung af hefðum og gömlum venjum. Það tekur langan tíma að breyta kúrsi svona skútu þannig að við erum bara glöð og ánægð ef við tökum lítil skref. Við ætlum okkur að vera lengi við völd, núverandi ríkisstjórn eða stjórnarflokkarnir, og breyta vinnulaginu til hins betra.

Það er náttúrlega ljóst að við ætlum ekki að verja fjármunum okkar í að greiða skuldavexti. Það er afar vond nýting fjármuna að u.þ.b. fimmta hver króna fari í skuldavexti; við ætlum ekki að hafa það þannig til langframa. Við verðum að horfast í augu við það að við þurfum að fara í verulegan niðurskurð á gjöldum ríkissjóðs og það reynum við að gera eins vel og skynsamlega og nokkur kostur er. Þetta er ekki skemmtiverkefni en ýmislegt verða þingmenn að sætta sig við sem þeir hefðu gjarnan viljað hafa öðruvísi. Við höfum þó forgangsraðað verulega þannig að við höfum varið velferðina og reynum nú að skera niður að meðaltali um 1,5% á meðan við skerum talsvert meira niður í stjórnsýslunni. Um leið og við skerum niður horfum við til þess að við verðum að gera áætlanir til lengri tíma um hvernig við ætlum að fara í uppbyggingu þegar við fáum aftur tækifæri til þess.

Þar sem ég sit í velferðarnefnd langar mig fyrst og fremst að fara yfir þann málaflokk, enda er hann stór og mikill og nær yfir u.þ.b. 40–50% gjalda ríkissjóðs. Það skiptir náttúrlega miklu máli að vanda sig verulega. Við erum að sýsla með almannafé þannig að það skiptir afar miklu máli að við vöndum okkur, að við hugum vel að jöfnuði milli fólks, milli landshluta og milli málaflokka og við höfum reynt að gera það.

Mig langar fara fyrst örstutt yfir heilbrigðisstofnanir. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, hefur farið mjög vel yfir það mál. Þegar álit nefndarinnar lá fyrir og við kynntum það fyrir fjárlaganefnd vorum við í raun og veru bara með fjárlagafrumvarpið í hendi en þær breytingar sem höfðu verið unnar í ágætri greinargerð velferðarráðherra um heilbrigðisstofnanir lágu ekki opinberlega fyrir. Sem betur fer var dregið talsvert úr hagræðingarkröfu til heilbrigðisstofnana vítt og breitt um landið, sem er mjög gott mál að var ekki bara gert einhvern veginn heldur farið hringinn í kringum landið og farið yfir hvernig staðan var og þess gætt að starfsgrundvöllur heilbrigðisstofnananna væri nokkuð tryggður.

Mér finnst það skipta mjög miklu máli og stend við það að við verðum að vera með stefnu í málefnum heilbrigðisstofnana og að sjálfsögðu í öllum málefnum og áætlun til langs tíma um það hvernig við viljum hafa fyrirkomulagið og innan hvaða fjárhagsramma á að starfa. Það þarf að skoða staðsetningu, samvinnu, sameiningu og skilgreina starfsemina á hverjum stað. Það getur vel verið að við getum hugsað okkur að gera einhverjar breytingar á starfsemi heilbrigðisstofnana en þær verða að gerast á löngum tíma og í góðri samvinnu við alla aðila þannig að þjónustan verði fagleg, góð og hagkvæm. Allir aðilar verða að vita til hvers er ætlast af þeim, bæði faglega og fjárhagslega, til að geta lagað starfsemi sína að þeim römmum sem settir eru.

Nauðsynlegt er þegar við förum í breytingaferli á stofnunum sem skipta fólk og byggðir máli, eins og heilbrigðisstofnanirnar gera, að gefinn sé góður tími og eðlilegt tóm til aðlögunar. Mér finnst það sama eiga við um uppbyggingu hjúkrunarrýma og vil benda á það. Það er eðlilegt að fylgja þeim áætlunum sem unnar eru um þörf fyrir slík rými og gefa jafnframt til þess góðan tíma ef breyta á þeim áætlunum.

Mig langar aðeins að minnast á það að í áliti meiri hlutans er mikið talað um sérfræðilækna og hversu dýr sú þjónusta er. Það er vilji meiri hluta velferðarnefndar og að ég held meiri hluta þingmanna að skoða það mjög ákveðið hvort ekki sé eðlilegt að taka upp einhvers konar þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu til að minnka óþarflega mikla ásókn í sérfræðilækna, sem er í raun og veru mjög dýr þjónusta og mjög gott að við eigum og getum leitað til en oft og tíðum getum við notað lægra þjónustustig. Það er ódýrara fyrir samfélagið og fyrir einstaklingana og ég held að við þurfum að vinna mjög ákveðið að því að koma á einhvers konar þjónustustýringu. Í skýrslu sem kom út núna á dögunum er lagt til að farið verði út í þannig kerfi þar sem íslensk heilbrigðisþjónusta er ein af örfáum sem ekki hefur slíkt kerfi. Við hefðum gjarnan viljað sjá það í fjárlagafrumvarpinu núna. Það náðist ekki en við munum leggja áherslu á að það komi fram síðar. Það skiptir t.d. miklu máli að fram komi að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu verði endurskipulögð. Ég hef oft sagt það í velferðarnefnd að höfuðborgarsvæðið gæti lært mikið af landsbyggðinni því að þar er heilsugæslan ótvírætt fyrsta þjónustustigið og það þjónustustig sem langflestir nota. En eins og ég segi held ég að við eigum að vera þakklát fyrir þá vinnu sem hefur verið unnin í góðu samstarfi við heilbrigðisstofnanir þar sem hagræðingarkrafan hefur verið minnkuð talsvert á nánast öllum stofnunum.

Það sama á við um Landspítalann. Nefndarmenn hafa áhyggjur af því að tækjakostur er kominn til ára sinna en horfa til þess að í byggingarkostnaði nýs Landspítala er gert ráð fyrir 7 milljörðum til tækjakaupa svo að vonandi verður þeirri þörf fullnægt.

Talsverð umræða hefur verið upp á síðkastið um tannlækningar barna. Haldinn var fundur í velferðarnefnd þar sem farið var yfir þau mál. Það olli nefndarmönnum vonbrigðum að lækkað var fjárframlag til þessa málaflokks í fyrra vegna þess að það var ekki nýtt. En nú verður gert átak og reynt að ná samningum milli tannlækna og stjórnvalda og lagt er til í þessum nýju tillögum fjárlaganefndar að settar verði 140 milljónir í þann málaflokk.

Við ræddum það svolítið í nefndinni hvort skoða ætti að setja svokallað tappagjald á þar sem lagðar yrðu örfáar krónur á hvern tappa í seldum gosdrykkjum og munum við skoða það áfram. Það kemur náttúrlega í ljós í skýrslu þeirrar nefndar sem ég nefndi áðan að börn eru orðin of þung og ekki með nógu góðar tennur þannig að það er í sjálfu sér alls ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir tappagjaldi sem rynni þá í ríkissjóð og þar með gætum við varið meira fjármagni í þennan málaflokk.

Á okkar könnu eru líka bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga. Allar bætur hækkuðu miðað við kjarasamninga um 8,1% og gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að hækka alla bótaflokka nú um 3,5%. Í frumvarpinu eins og það var lagt fram voru ákveðnir bótaflokkar undanskildir en fjárlaganefndin hefur breytt því þannig að allir bótaflokkar fái þessa 3,5% hækkun og erum við afar ánægð með það. Við höfðum áhyggjur af því að þeir bótaflokkar sem átti að undanskilja væru mjög tengdir börnum og barnafjölskyldum og okkur fannst óeðlilegt að þeir yrðu ekki hækkaðir, en það hefur sem sagt verið tekið tillit til þess.

Mikil umræða hefur verið um fæðingarorlof. Í velferðarnefnd hafa verið áhyggjur af útgjaldalækkun úr Fæðingarorlofssjóði sem hreinlega hefur komið til af því að færri hafa tekið fæðingarorlof og þá einkum karlar. Það er mikið áhyggjuefni og því segir hér í nefndaráliti meiri hluta, með leyfi forseta:

„Um leið og rofar til í ríkisfjármálum telur meiri hlutinn brýnt að hafist verði handa við að byggja aftur upp fæðingarorlofskerfið og draga skipulega úr þeim skerðingum sem gerðar hafa verið um leið og horft er til enn frekari uppbyggingar sjóðsins.“

Það skiptir nefnilega miklu máli í niðurskurði vegna svo erfiðra aðstæðna í efnahagslífinu að við horfum til þess að við munum rísa upp og þá verðum við að vera með áætlun sem byggir kerfið okkar upp aftur.

Síðan örstutt um húsnæðismál því að Íbúðalánasjóður er á könnu nefndarinnar. Við fengum fulltrúa Íbúðalánasjóðs á okkar fund og kom í ljós að þó nokkrir lántakar þar eru í erfiðum aðstæðum og við viljum að það verði skoðað gaumgæfilega hvort heimildir sjóðsins vegna 110%-leiðarinnar séu of þröngar og að brugðist verði við ef þörf krefur, sem er í anda þess sem eftirlitsnefnd með sérstakri skuldaaðlögun hefur bent á.

Ég ætla svo sem ekki að endurtaka hér tekjuhlið fjárlaganna. En formaður nefndarinnar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, fór mjög vel yfir hana og áhuga okkar nefndarmanna á að skoða tillögur ÁTVR um breytingu á tóbaksgjaldinu þannig að það verði hækkað um 7,5% í stað 5,1% og sett verði á fast verð, svo að ekki sé nú talað um sérstakan áhuga okkar á því að hækka neftóbakið verulega. Það er gott að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson situr hér alltaf og hlustar á þegar við ræðum það. En það er ekki síður tengt sjónarmiðum um lýðheilsu vegna þess að við vitum að margir ungir drengir nota neftóbak, of hressilega kannski, í vörina. Allir vita að það er ekki heilsusamlegt.

Ef ég dreg nú örlítið saman tillögur velferðarnefndar þá segir í nefndaráliti okkar að við viljum standa vörð um heilbrigðisþjónustuna og að hagræðingarkröfurnar verði aldrei til þess að dýrari leiðir verði fyrir valinu þegar ódýrari eru skornar niður. Við viljum að ákveðin stefna liggi að baki því hvernig heilbrigðisþjónustan er skorin niður, ekki megi bara gera það einhvern veginn, og teljum við að því hafi á ákveðinn hátt verið svarað hér. Ég legg þó áherslu á það sem ég sagði fyrr í ræðu minni: Það skiptir máli að allir viti til hvers er ætlast af þeim og að við þorum að hafa ákveðna stefnu í heilbrigðismálum.

Svo ítreka ég þetta með tannheilbrigði og tannheilsu og lýsi yfir mikilli ánægju með að komnir séu inn ákveðnir peningar í það verkefni á fjárlögum og minni á tappagjaldið.

Síðan langar mig að enda mál mitt á því sem ég held að verði aldrei of mikil áhersla lögð á, að um leið og við horfumst í augu við það að við þurfum að skera niður leggjum við um leið mikla áherslu á að skipuleggja til lengri tíma og láta áætlanir miða að því að undirbyggja þá þjónustu sem er mikilvægur hluti af velferðarkerfi okkar, eins og fæðingarorlof sem við þurfum að hugsa til lengri tíma hvernig við byggjum upp í áföngum aftur þegar við höfum til þess fjárhagslegt bolmagn.