140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það er margt sérkennilegt varðandi fjárlagafrumvarpið nú sem stundum áður. Þar á meðal var verið að segja mér rétt áðan að í fyrramálið væri fyrirhugaður fundur í efnahags- og viðskiptanefnd um breyttar tekjuforsendur frumvarpsins og við erum hér í 2. umr. Mér finnst svolítið sérstakt að vera í 2. umr. að ræða fjárlög ef það á að fara að ræða í fyrramálið um hvort forsendur frumvarpsins standist eða hvort þær hafi breyst. Mér finnst þetta mjög sérstakt sé þetta rétt.

Hv. þingmaður fór ágætlega yfir álit velferðarnefndar. En mér finnst eins og nefndarmenn í velferðarnefnd séu að reyna að draga úr því áliti sem skilað var inn vegna fjárlaganna. Nú breytir það í raun engu hvenær álitið var ritað því að það sem hefur gerst síðan, og er meðal annars staðfest í greinargerð frá velferðarráðherra, er að víða á heilbrigðisstofnunum hefur verið gripið til aðgerða sem beinlínis skerða getu stofnana til að sinna þeirri þjónustu sem þeim er ætlað. Það kemur fram í þessari greinargerð þar sem talið er upp hvað er búið að gera á hverjum stað og þá er það augljóst. Velferðarnefnd, ef ég skil álit hennar rétt, gagnrýnir hvernig staðið er að þessari vinnu. Þess vegna spyr maður sig hvort ekki sé eðlilegra að draga alla þá hagræðingu sem boðuð hefur verið á heilbrigðisstofnunum til baka þannig að faglega vinnan verði unnin fyrst. Það er alveg klárt mál að það er óeðlilegt að breyta heilbrigðisþjónustunni í gegnum fjárlögin.