140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:26]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég heyrði, af því að ég hlustaði með athygli á ræðu hans áðan, að við erum að mörgu leyti sammála um að algjörlega nauðsynlegt sé að breyta vinnulaginu við fjárlagagerðina. Í mínum huga er engin spurning um það. Eins og ég sagði í ræðu minni tekur það tíma, sem er ekki gott þegar maður er óþolinmóður að upplagi. Við verðum að sætta okkur við að það taki einhvern tíma en við megum samt ekki vera of þolinmóð heldur ýta dálítið á það.

Síðan verð ég að viðurkenna að ég deili áhyggjum eða þeim þankabrotum sem hv. þingmaður reifaði. Ég er hrædd um að ef gerð yrði úttekt á því hver hin eiginlega hagræðing væri af því að skera niður á heilbrigðisstofnunum, sem hafa ódýr rúm og þar sem aðgerðir eru talsvert ódýrari en á hátæknisjúkrahúsunum okkar á Landspítalanum og á Akureyri, sé hún mun minni en við höldum að hún sé. Það er eitt af því sem ég held að við þyrftum að láta skoða fyrir okkur og greina þá nákvæmlega hver útkoman úr reikningsdæminu yrði þegar upp er staðið.