140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:29]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef talsverðan áhuga á þessum hjúkrunarrýmismálum og það hvernig þeim er úthlutað. Það á að vera til áætlun um hversu mörg hjúkrunarrými þurfa að vera á hverju heilbrigðissvæði, getur maður sagt, í hverju umdæmi fyrir sig. Mér hefur stundum fundist eins og skautað sé fram hjá þeirri áætlun og allt í einu ákveðið að nú þurfi að fara af stað einhvers staðar annars staðar og þá skelli menn sér af stað í það og gangi kannski fram hjá þeim svæðum sem lengi hafa beðið.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst erfitt að hugsa til þess að flytja þurfi eldra fólk mikið veikt yfir hálft landið til þess að það geti fengið hjúkrunarrými. Ég hef því frekar viljað horfa til þess hvort við gætum rekið hjúkrunarheimilin okkar í samstarfi við heilbrigðisstofnanirnar okkar þannig að við fáum þennan þokkalega faglega og stóra massa sem við þurfum til að reka stofnunina frekar en að vera að flytja (Forseti hringir.) gamalt fólk langar vegalengdir.