140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta vil ég segja að ég er ánægður með að hv. þingmaður skuli standa við það álit sem meiri hluti velferðarnefndar lagði fram við fjárlagagerðina vegna þess að mér hafa fundist aðrir stjórnarþingmenn heykjast svolítið á því áliti. Þetta þýðir að hv. þingmaður er mjög óánægð með þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í fjárlaganefnd og þá stefnu sem kemur fram í fjárlagagerðinni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er það ekki rétt hjá mér að hún greiddi atkvæði með fjárlagafrumvarpinu fyrir ári þegar lagt var af stað í þessar miklu breytingar? Ætlar hún að greiða atkvæði gegn þeim breytingum sem áfram er haldið með hér í þessu frumvarpi?

Það skiptir engu máli fyrir heilbrigðisstofnanirnar úti á landi hvort þetta sé gert á mjög stuttum tíma eða dreift á langan tíma ef breytingin nær fram að ganga fyrir rest. Annar meiri hluti, sem ég tilheyri, hefur lagt fram tillögur og ég spyr hvort hún sé þá ekki reiðubúin að skoða þær með opnum huga.

Ég hef lítinn tíma þannig að ég ætla að láta þetta nægja í fyrri umferð.