140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:36]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að ég veit alveg í hvaða liði ég er og ég skipti ekkert um lið eftir því hvernig málum er háttað, reyni bara að hafa áhrif innan míns liðs eins og ég mögulega get án þess að vera með stórkarlalegar yfirlýsingar annars staðar.

Það sem við eigum við í áliti meiri hlutans er það að Boston Consulting Group, sem var síðan að vinna með öðrum aðilum í ráðuneytinu og utan ráðuneytisins, skilar inn ákveðnum hugmyndum sem gera meðal annars ráð fyrir því að við förum í svokallaða þjónustustýringu með tilvísanakerfi o.fl. Þetta kom ekki fram fyrr en fjárlagafrumvarpið lá fyrir og við lýsum því yfir að okkur þykir það verra. Við hefðum mjög gjarnan viljað að þessi vinna hefði farið fram fyrr og það hefði komið fram í fjárlagafrumvarpinu að við ætluðum að fara í þetta kerfi. Þar með ætluðum við að setja meira fjármagn í heilbrigðisstofnanir og heilsugæsluna og minna til sérfræðilækna. Þetta hefðum við mjög gjarnan viljað að lægi fyrir en því miður taka allar breytingar langan tíma og við munum vippa okkur í þetta strax á næsta ári.