140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[00:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í undirhópnum sem vann að vinnulagsbreytingunni voru, ásamt mér hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hv. þm. Þór Saari og hv. þm. Þuríður Backman. Ég leyfi mér að segja að við unnum að breytingunni eins og einn maður og nutum reynslu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem hún býr yfir sem fyrrverandi menntamálaráðherra. Innlegg hennar inn í alla þessa vinnu er ómetanlegt.

Hv. þingmaður spyr hvernig við ætlum að fylgja breytingunum og samstarfi við ráðuneytin eftir. Búið er að ákveða að fulltrúar frá ráðuneytunum komi fyrir fjárlaganefnd og fari yfir hvernig unnið hafi verið úr breytingunum í þetta skiptið. Við gerum okkur öll grein fyrir því að kerfið er ekki fullkomið og það þarf að bæta enn betur og ganga enn lengra. Við sjáum að við þurfum að gera það strax.

Samstarfið við ráðuneytið verður með þeim hætti að ráðuneytið kemur fyrir fjárlaganefnd með allar niðurstöður sínar og skjöl yfir hvernig til tókst og eins tillögur um úrbætur. Síðan mun fjárlaganefnd sinna eftirlitshlutverki sínu og ganga á eftir því að markmiðin með breytingunum nái fram að ganga.

Ég er reyndar sannfærð um að þó að einhverjir hnökrar verði til að byrja með verður nýja verklagið ekki aflagt vegna þess að allir munu sjá að það verður mun betra en áður var.