140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[00:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka góð orð í minn garð en ég vil líka geta þess að fólk kemur og fer og eftir stendur kerfi sem framtíðin verður að vinna eftir. Slík kerfi verða að standast tímans tönn. Ég held að það sé lykilatriði sem hv. þingmaður, sem verður eflaust einhvern tíma hæstvirtur eitthvað, nefndi varðandi þetta mál; því verður að fylgja eftir og ég er sannfærð um að þetta var hárrétt skref. Ég er líka sannfærð um að sá rammi sem við erum búin að koma upp er í meginatriðum réttur en þetta er ekki fullkomið kerfi. Það er mikilvægt að við séum meðvituð um að vinna kerfið áfram saman og gefa ekki eftir því að við vitum það báðar vel að ýmsir vilja hverfa aftur til gamla fyrirkomulagsins. Ég held að það væri mikið óráð. Það er ekki í anda þess gegnsæis sem kallað er eftir, að stjórnsýslulög gildi varðandi þær úthlutanir sem um ræðir, þ.e. fyrir þá sem sækja um styrki. Það þarf að vera gegnsæi sem er svo mikilvægt þegar verið er að úthluta opinberum fjármunum.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki örugglega sammála mér um að við höldum áfram en séum fullmeðvituð um að við þurfum að gæta að ákveðnum vandamálum og viðfangsefnum sem upp kunna að koma á þessu ferli til næstu ára.