140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[00:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún fór mjög vel yfir þær breytingar sem verið er að gera á úthlutun svokallaðra safnliða hjá fjárlaganefnd. Ég vil líka nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir framlag hennar í þeirri vinnu. Hún hefur fylgt því eftir eftir að hún hætti sem formaður fjárlaganefndar og haldið utan um þetta verkefni til stuðnings við hv. fjárlaganefnd, sem ég tel mjög mikilvægt.

Hv. þingmaður kom inn á þá skýrslu í ræðu sinni sem hv. fjárlaganefnd gerði um skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 2009. Sú breyting verður gerð á næsta fjárlagaári, menn ræða rammana í apríl og verður frumvarpið þá væntanlega lagt fram fyrr. Ég vil spyrja hv. þingmann um hvort hún telji ekki nauðsyn á því nú við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2012 að gefið verði merki um að það sé ætlan þingsins að farið verði að fjárlögum ársins, þ.e. að fjárlagaramminn fyrir stofnanirnar sé sá rammi sem viðkomandi stofnun eigi að vinna eftir og að ekki verði leitað í svokallaðar markaðar tekjur eða sértekjur.

Það er ákveðinn veikleiki í því hvernig staðið er að undirbúningi að fjárlagafrumvarpinu sem lýtur að tekjuhlutanum. Hver er skoðun hv. þingmanns á því að við þurfum að gera aftur breytingu á þingskapalögunum þannig að tekjuhlutinn sé í efnahags- og viðskiptanefnd en ekki á einhverju floti á milli fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar?