140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[00:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort mér finnist ekki vera vandræðagangur með tekjuhlutann í nýjum þingskapalögum og hvernig þeim málum sé fyrir komið. Ég get upplýst hv. þingmann um að ég var þeirrar skoðunar þegar unnið var að nýjum þingskapalögum að tekju- og gjaldahlutinn ættu að vera í sömu nefnd og það væri mikilvægt að hafa yfirsýn í einni nefnd yfir báða þættina.

Það varð hins vegar ekki niðurstaðan en það er nefnd að störfum sem á að endurskoða þingskapalögin. Það vill svo til að ég er í þeirri nefnd þannig að ég mun beita mér fyrir því og reyna að færa rök fyrir því í þeirri nefnd að það þurfi að breyta þessu, að það sé mikilvægt. Ég tel reyndar mjög mikilvægt að allir hv. þingmenn sem eru í fjárlaganefnd, og ég tala nú ekki um ef tekjuhlutinn verður algjörlega þar inni, sitji bara í þeirri einu nefnd. Þegar kemur að hinum nefndunum þurfum við jafnvel að fækka fulltrúum þar en að vísu er það svigrúm fyrir hendi í lögunum í dag.

Varðandi stofnanirnar er það rétt sem hv. þingmaður kom inn á, stofnanir sem sinna skjólstæðingum, eins og menntastofnanir og heilbrigðisstofnanir, geta ekki skorið niður á sama hátt og aðrar. Niðurskurður þeirra er sársaukafyllri og varanlegri en annarra stofnana. Ég held að ég átti mig vel á því sem hv. þingmaður er að segja og tel að það sé verkefni sem við þurfum að fara vel í gegnum því að niðurskurður á þeim stofnunum sem hann nefnir er ekki varanlegur (Forseti hringir.) ef hann er bara á tæknilega sviðinu.