140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[01:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem margt athyglisvert kom fram í. Hv. þingmaður kom inn á Sparisjóð Keflavíkur og innbyggðan halla í fjárlögunum fyrir árið 2012. Hann talaði um að það þyrfti að skoða það mál mjög vel, sérstaklega með tilliti til deilna, meðan sparisjóðurinn var í umsjá ríkisins eftir að hann var yfirtekinn og áður en hann var færður yfir í Landsbankann, um það hvort afslátturinn á yfirtökunni sé 11,2 milljarðar eða hugsanlega 30 milljarðar eins og forsvarsmenn Landsbankans hafa haldið fram. Hann nefndi í ræðu sinni að það hefði þurft að skoða innlánsvexti sem voru í boði hjá þessari stofnun og mörgum öðrum sem hafa hugsanlega sogað óeðlilegt fjármagn inn í innlán á sama tíma og búið var að gefa út yfirlýsingu um tryggingu á innlánum.

Mér er kunnugt um að viðkomandi bankastofnun gekk mjög harkalega fram gagnvart þeim sem voru í viðskiptum við hana með hækkun á vaxtaálagi. Fyrirtæki sem voru með í kringum 2% vaxtaálag voru hækkuð upp í 7% án þess að þau væru í vanskilum og þrátt fyrir að hafa alla tíð greitt af lánum sínum. Áður en dómurinn féll um ólögmæti gengistryggðra lána við erlendan gjaldmiðil er ég ansi hræddur um að menn hafi verið búnir að tekjufæra fullt af tekjum inn í eignir sjóðsins. Eins og við munum varð niðurstaðan sú að miða við 5,25% vexti.

Hv. þingmaður er mjög glöggur og spáir mikið í þessa hluti. Dómur féll í síðustu viku og ég spyr: Hefur hv. þingmaður, einmitt út af stofnfjárkaupum í öðrum sparisjóðum, skoðað hvort sá dómur gæti haft áhrif á til dæmis Sparisjóð Keflavíkur þannig að afföllin yrðu enn þá meiri sem Landsbankinn (Forseti hringir.) færi fram á við kaup og yfirtöku á sparisjóðnum?