140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[01:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki löglærður og síst af öllu er ég dómari þannig að ég vil ekki setja mig í þær stellingar. Hins vegar finnst mér rökrétt að ef stofnfjáreigendur í einum sparisjóði fá þann dóm að þeir skuldi ekki þau lán sem þeir tóku til að kaupa stofnbréfin eigi það út af jafnræðisreglunni að gilda fyrir aðra líka.

Þessi dómur mun búa til mörg önnur vandamál. Hvað með þá sem fengu ekki beint lán til að kaupa stofnbréf heldur óbeint, þ.e. ekki beint í tengslum við kaupin, jafnvel borguðu stofnbréfin með eigin sparnaði? Hvernig standa þeir, fá þeir stofnbréfin endurgreidd eða hvað gerist? Það getur komið út úr þessu ákveðin mismunun og maður þyrfti að skoða þennan dóm miklu nánar til að geta sagt meira um rökin. Var fólki til dæmis sterklega ráðlagt að kaupa þessi bréf?

Þá fer maður að velta fyrir sér frekari afleiðingum. Hvað gerist með þá sem var ráðlagt að kaupa hlutabréf, t.d. í Kaupþingi? Ég hef heyrt sögur af því, ekki þó staðfestar, að fólki hafi verið sterklega ráðlagt að kaupa hlutabréf í Kaupþingi og svo hvarf hlutabréfið en lánið stóð eftir. Það fékk sem sagt lán til kaupanna.

Þessi dómur mun væntanlega vekja væntingar en svo hugsanlega hefur hann ófyrirséðar afleiðingar. Þetta er athyglisverður dómur og það verður fróðlegt að fylgjast með því hvaða afleiðingar hann hefur.